Innlent

Læknaflóttinn stöðvaður

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Tíu læknar sögðu starfi sínu lausu á Landspítalanum á meðan verkfall lækna stóð yfir, frá október í fyrra þar til deilan leystist þann 7. Janúar síðastliðinn. Átta af þessum tíu hafa þegar dregið uppsagnir sínar til baka. Þá sögðu tólf svæfingarlæknar upp vöktum sínum á Landspítalanum eftir að verkfallsaðgerðirnar hófust vegna óánægju með kjör og vaktafyrirkomulag.

„Nú ætlum við að gera breytingar á vinnufyrirkomulaginu og mun það koma til móts við þeirra mikla álag á vöktum. Þannig að þeir hafa líka fallið frá því að hætta að taka vaktir,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Því hafa nær allir þeir læknar sem sögðu upp starfi sínu eða vöktum á meðan verkfallsaðgerðir læknar stóðu yfir, dregið þær uppsagnir til baka. Páll segir þetta skipta gríðarlega miklu máli fyrir spítalann.

„Við vitum það líka að það eru íslenskir læknar erlendis sem hafa verið að íhuga að koma heim. Við erum að fá þá heim núna, það er að gerast þessa mánuðina,“ segir Páll.

Það hefur verið talað um landflótta íslenskra lækna vegan lélegra kjara. Telur þú að nýir kjarasamningar hafi stöðvað þann flótta?

„Já ég tel að þessir samningar hafi hjálpað mjög, þannig að það hafi stöðvast sá landflótti. Líka það að okkar yngri læknar, þeir séu þá tilbúnir að vera lengur hjá okkur og að fólk komi fyrr heim úr sérfræðnáminu. Þannig að við sjáum að hlutirnir eru farnir að skrúfast upp á jákvæðan hátt,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×