Innlent

Gagnrýna að dæmdur skattsvikari annist akstur fatlaðra og kæra Strætó

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Margvíslegir erfiðleikar hafa sett mark sitt á Ferðaþjónustu fatlaðra að undanförnu.
Margvíslegir erfiðleikar hafa sett mark sitt á Ferðaþjónustu fatlaðra að undanförnu. Fréttablaðið/Anton
Einkahlutafélögin All Iceland Tours, Aldey og Efstihóll hafa kært samninga Strætó við Ný-Tækni vegna ferðaþjónustu fatlaðra til kærunefndar útboðsmála.

Ný-Tækni tók í febrúar við hlutverki Kynnisferða við svokallaðan tilfallandi akstur fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra. Kynnisferðir óskaðu eftir að losna undan skuldbindingum sem fyrirtækið hafði gengist undir sem aðili að rammasamningi eftir útboð sumarið 2014. Fyrirtækin þrjú sem kæra tóku þátt í því útboði en Ný-Tækni ekki.

Í umsögn lögmanns fyrirtækjanna þriggja, Sveins Andra Sveinssonar, segir að ef viðskiptasaga Ný-Tækni hefði verið skoðuð eins og átt hefði að gera þá hefði komið í ljós að núverandi stjórnarformaður félagsins og einn af prókúruhöfum þess hafi setið níu mánuði í fangelsi í Svíþjóð eftir tólf mánaða dóm á árinu 2007 fyrir vanskil á opinberum gjöldum.

Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður kærenda.Fréttablaðið/Valli
„Samdi varnaraðili [Strætó] við hugbúnaðarfyrirtæki sem ekki hafði hópferðaleyfi um akstur fatlaðra, hvers eini eigandi og eini stjórnarmaður hafði tólf mánaða dóm á bakinu fyrir skattsvik. Félagið hafði engar tekjur á árinu 2013 og hafði verið rekið með tapi og ekki rekstrarhæft,“ segir lögmaðurinn.

Af mörgum öðrum atriðum í umsögn kærendanna má nefna að þeir telja að með breytingum á níu bílum sem Ný-Tækni ráði yfir þannig að þeir taka nú allir fimm farþega í stað á bilinu níu til fjórtán áður séu þeir nú leigubílar en ekki hópferðabílar.

„Til þess að aka slíkum bifreiðum þarf umráðamaður að hafa atvinnuleyfi sem leigubifreiðastjóri. Aðeins eigendurnir þrír hafa leigubílaleyfi, en aðrir ökumenn sem starfa fyrir Ný-Tækni hafa það ekki,“ segja kærendurnir í sérstakri kæru til Samgöngustofu þar sem þess er krafist að stofnunin tilkynni Strætó og Ný-Tækni að óheimilt sé að nota þessa bíla í akstursþjónustu fyrir fatlaða. „Samrit verði sent lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með ósk um stöðvun bifreiðanna.“

Guðmundur Siemsen, lögmaður Strætó, hafnar því í greinargerð til kærunefndarinnar að Ný-Tækni hafi ekki þurft að uppfylla sömu skilyrði og aðrir þátttakendur í samningskaupaferlinu.

„Þá hafnar varnaraðili [Strætó] alfarið sem rangri fullyrðingu kærenda þess efnis að lög um opinber innkaup hafi verið brotin með margvíslegum hætti við hina kærðu ákvörðun, en verulega skortir raunar á að kærendur færi fullnægjandi rök fyrir henni,“ segir lögmaður Strætó og krefst þess að kærunni verði vísað frá og kærendurnir látnir borga málskostnað enda séu kröfur þeirra „bersýnilega tilhæfulausar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×