Innlent

„Hafið þið hjónin þá ekki lagt fram kæru á Kaupþingsmenn fyrir skjalafals?“

Birgir Olgeirsson skrifar
Jón Gerald Sullenberger og Ingibjörg Kristjánsdóttir.
Jón Gerald Sullenberger og Ingibjörg Kristjánsdóttir.
Kaupmaðurinn Jón Gerald Sullenberger ritar opið bréf til Ingibjargar Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar, sem birtist í Fréttablaðinu í dag en þar beinir hann nokkrum spurning til Ingibjargar eftir að hafa lesið dóm Hæstaréttar í Al Thani-málinu.

Hann segist hafa lesið grein hennar sem birtist í Fréttablaðinu 7. apríl síðastliðinn þar sem Ingibjörg sagði Hæstarétt hafa farið mannavillt og ranglega sakfellt eiginmann sinn í málinu.

Jón Gerald vitnar til að mynda í símtal sem er ritað upp í dómi Hæstaréttar þar sem segir: „...já, sem það og er sko, af því mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part af kökunni sko.“

„Sinn part af kökunni“

Þá spyr hann Ingibjörgu um hvaða Ólaf sé verið að ræða og spyr í leiðinni hvort Ólafur Arinbjörn hjá Logos eigi að fá „sinn part af kökunni“?

Einnig vitnar hann í ummæli Bjarnfreðar Ólafssonar lögmanns og stjórnarmanns í Kaupþingi, sem starfaði fyrir Ólaf Ólafsson, þar sem Bjarnfreður segir: „Hann þarf að fá sinn part af upside-inu sko.“

Jón Gerald spyr hvaða „hann“ starfsmaður Ingibjargar og Ólafar sé að vísa til sem eigi að fá „sinn part af upside-inu sko“? „Varla er Bjarnfreður, starfsmaður ykkar hjóna, að meina að Ólafur Arinbjörn, lögmaður á Logos, eigi að fá hagnaðinn af gengishækkun hlutabréfanna í Kaupþingi?“

„Hvaða „ÓÓ““?

Hann vísar einnig í tölvupóst sem Kaupþingsmenn sendu sín á milli og Hæstiréttur vísar í en þar er spurt: „Hvernig samning ÓÓ gerir við Sjeikinn til að tryggja sér sinn hlut af hagnaðinum af Kaupþingsbréfunum sem þeir eru að kaupa“. Jón Gerald spyr Ingibjörgu hvaða „ÓÓ“ Kaupþingsmenn séu að vísa til sem á að fá sinn hlut af hagnaðinum?

Þá segir hann það hafa komið fram í málinu að Kaupþing hefði lánað félaginu „Gerland Assets Ltd.“, skráðu á Bresku Jómfrúareyjum, yfir 12 þúsund milljónir króna, félagi sem var að stórum hluta í eigu Ólafs Ólafssonar, eiginmanns Ingibjargar.

„Sama upphæð var svo lánuð til félags í eigu Sjeiks Al Thani. Var eiginmaður þinn skráður eigandi að „Gerland Assets Ltd.“ ÁN HANS SAMÞYKKIS? Ef svarið er já, hafið þið hjónin þá ekki lagt fram kæru á Kaupþingsmenn fyrir skjalafals?“

Spyr hvers vegna Al Thani bar ekki vitni

Jón Gerald spyr Ingibjörgu hvort það sé rétt að Ólafur Ólafsson, eiginmaður hennar, hafi hringt til Kaupþings banka í Lúxemborg, eftir að Kaupþing féll, og beðið starfsmenn bankans um að allar ábyrgðir, sem Sjeik Al Thani hafði undirgengist, yrðu felldar niður.

Einnig spyr Jón Gerald Ingibjörgu hvers vegna Al Thani mætti ekki fyrir dóm og bar vitni um sakleysi eiginmanns hennar: „Sé hafður í huga hinn mikli vinskapur ykkar hjóna við Sjeik Al Thani sbr. bréf þitt.“

Þá segir Jón Gerald að fram hafi komið fyrir dómi að eiginmaður hennar, Ólafur Ólafsson, hafi persónulega greitt mörg hundruð milljónir króna í vexti af láni Al Thanis.

„Ef eiginmaður þinn kom hvergi nálægt þessum hlutabréfakaupum Sjeiks Al Thani eins og þið hjónin viljið halda fram, af hverju er þá Ólafur Ólafsson, eiginmaður þinn, að greiða vexti fyrir einn ríkasta mann í heimi, þar sem þetta voru hans persónulegu hlutabréfakaup í Kaupþingi banka en ekki ykkar hjóna?“

Sjá opið bréf Jóns Geralds til Ingibjargar hér.


Tengdar fréttir

Segir Hæstarétt hafa ruglað saman Ólum í Al Thani-dómi

Eiginkona Ólafs Ólafssonar segir að í fjögurra og hálfs árs fangelsisdómi Hæstaréttar sé Ólafi ruglað saman við lögfræðing að nafni Ólafur. Grundvallaratriði segir lögmaður Ólafs. Þeir íhugi nú að krefjast endurupptöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×