Forsætisráðuneytið hefur ítrekað spurst fyrir um hvort ekki sé óyggjandi að fyrirtækið Hreint ehf. uppfylli að fullu ákvæði kjarasamninga vegna verkefna fyrirtækisins fyrir ráðuneytið.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ráðuneytið hafi fyrir skömmu óskað eftir skriflegri yfirlýsingu frá Hreint þar sem fram kæmi skýr staðfesting á því að starfsfólk fyrirtækisins fái greitt samkvæmt gildandi kjarasamningi.
„Í framhaldi af því verður leitað álits viðkomandi stéttarfélags. Fyrir liggur að ef í ljós kemur að ákvæði kjarasamninga eru ekki að fullu uppfyllt verður samningi við fyrirtækið Hreint ehf. sagt upp.“
Í tilkynningunni segir að forsætisráðuneytið geri í öllum tilvikum skýra kröfu um að verktakar sem selji ráðuneytinu þjónustu eða vörur hlíti lögum og uppfylli í hvívetna skyldur gagnvart starfsfólki sínu. „Það á m.a. við um verktakasamning ráðuneytisins við fyrirtækið Hreint ehf. sem í gildi hefur verið frá árinu 2006.“
Fyrr í vetur birtust fréttir um að starfsfólk verktaka sem annast þrif á Landspítala hefði ekki fengið greitt samkvæmt gildandi kjarasamningi. Ráðuneytið hafi í kjölfarið ítrekað spurst fyrir um það hvort ekki sé óyggjandi að fyrirtækið Hreint ehf. uppfylli að fullu ákvæði kjarasamninga vegna verkefna fyrirtækisins fyrir ráðuneytið. Í svörum til ráðuneytisins hefur fyrirtækið staðfest að svo sé, en nú hafi verið fram á skriflega yfirlýsingu.
Ráðuneytið krefst skýringa frá Hreint ehf

Tengdar fréttir

Segir meinta óánægju ræstingafólks vera innanhússmál
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem sér um ræstingar hjá Landspítalanum í Fossvogi segir að ólgan í deilunni sé að hluta til byggða á misskilningi.

Flestum spurningum Landspítalans og Eflingar svarað
Framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs Landspítalans segir fund með framkvæmdastjóri Hreint ehf. hafa verið ágætan.