Innlent

Minni útflutningur þrátt fyrir samning

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Innflutningur frá Kína dróst örlítið saman í fyrra. Leiða má að því líkur að einhverjir hafi haldið að sér höndum í innkaupum í aðdraganda fríverslunarsamningsins sem tók gildi um mitt síðasta ár.
Innflutningur frá Kína dróst örlítið saman í fyrra. Leiða má að því líkur að einhverjir hafi haldið að sér höndum í innkaupum í aðdraganda fríverslunarsamningsins sem tók gildi um mitt síðasta ár. Fréttablaðið/GVA
Þrátt fyrir gildistöku fríverslunarsamnings við Kína um mitt síðasta ár dróst útflutningur landsins þangað saman um tæpan þriðjung milli áranna 2013 og 2014.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam virði útflutnings til Kína 7.020 milljónum króna árið 2013, en var 4.803 milljónir í fyrra. Verðmætið dregst saman um 31,6 prósent milli ára.

Þá dregst innflutningur frá Kína líka lítillega saman á milli ára, eða um 1,9 prósent, fer úr 43.024 milljónum 2013 í 42.193 milljónir 2014.

Á vef Hagstofunnar er nýjasta vöruflokkagreining á útflutningi til Kína frá árinu 2012 þannig að ekki liggur fyrir hvaða útflutningur það er sem dregist hefur saman.

Langlíklegast er þó að um sé að ræða sjávarfang af einhverju tagi en það er uppistaðan í vöruútflutningi til landsins. Í greiningu Hagstofu sést að 2012 voru sjávarafurðir 86 prósent útflutnings til Kína.

Nýjustu tölur Hagstofunnar um inn- og útflutning frá Kína benda til þess að enn halli á Ísland í viðskiptum landanna. 

Þannig er halli á vöruskiptajöfnuði landanna rúmum 397 milljónum króna meiri fyrstu tvo mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. 

Sé einungis horft til útflutnings er verðmæti hans í janúar og febrúar 1,61 prósenti minni en í fyrra, fer úr 697 milljónum króna í tæpar 686 milljónir. 

Á sama tíma eykst innflutningur frá Kína um 386 milljónir króna, fer úr rúmum 6.686 milljónum króna í rúmar 7.072 milljónir.

Frosti Ólafsson
Erfitt að meta reynsluna strax

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir erfitt að meta ávinning af fríverslunarsamningi Íslands við Kína þetta snemma. „Samningurinn tók gildi um mitt síðasta ár og því er reynslan af honum takmörkuð enn sem komið er.“ 

Fyrir fram segir Frosti að búast hefði mátt við að innflutningur myndi á fyrstu stigum aukast hraðar en útflutningur, enda taki lengri tíma fyrir íslensk fyrirtæki að skapa sér fótfestu á kínverskum mörkuðum en öfugt. Þetta megi einkum rekja til þeirrar staðreyndar að Íslendingar flytji mest inn af smásöluvörum frá Kína en meginuppistaðan í útflutningi okkar þangað séu sjávarafurðir. 

„Ég á þó von á því að til lengri tíma komi þessi samningur til með að efla viðskipti milli þessara landa,“ segir Frosti og bendir á að hér sé enda eftirspurn eftir framleiðsluvörum á hagstæðu verði, eins og merkja megi á mikilli aukningu netverslunar frá Kína. 

„Á sama tíma er ótvírætt sóknarfæri fyrir íslensk matvæli á þeim gríðarstóra markaði sem Kína er.“

Þá telur Frosti líklegt að viðskiptin fari vaxandi eftir því sem skilningur aukist á þeim tækifærum sem í samningnum felist. „Þar á ég til að mynda við hluti á borð við aukin aðfangakaup íslenskra framleiðenda frá Kína og mögulega sölu á sérhæfðri þjónustu frá Íslandi til Kína. 

Þekking á mörkuðum skiptir lykilmáli fyrir slíka þróun og líklega er hún fremur takmörkuð á báða bóga enn sem komið er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×