Innlent

Steingrímur J og Jón Bjarna hafa fátt eitt með aukna þorskgengd að gera

Jakob Bjarnar skrifar
Annað hvort hefur Árni gleymt þeim Steingrími og Jóni, eða hann telur ekki vert að nefna þá í þessu samhengi.
Annað hvort hefur Árni gleymt þeim Steingrími og Jóni, eða hann telur ekki vert að nefna þá í þessu samhengi.
Árni Mathiesen dýralæknir og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem nú starfar í Róm, rýndi í jákvæðar tölur sem Hafrannsóknarstofnun hefur sent frá sér eftir vorrallið. Þar kemur meðal annars fram að þorskstofninn er að eflast. „Það eru glæsilegar vístölur sem koma út úr vorrallinu hjá Hafró í ár,” segir Árni á Facebooksíðu sinni og vill ekki síst þakka sér og sínum mönnum þetta.

„Það er líka mjög uppörvandi að stjórnunaraðgerðir í ráðherratíð Þorsteins, í minni tíð og í tíð Einars sýna allar sjáanlegan árangur í hækkun á stofnvísitölu þorsks. Þetta er auðvitað merki um að grundvallar prinsipin sem hafa verið þróuð hjá okkur alveg frá því í tíð Halldórs eru í lagi til lengri tíma séð. Markmiðið um að fjölga í eldri árgöngum og þar með stækka bæði hrygningarstofninn sem heild og einstaklingana sem slíka er líka augljóslega að nást,“ segir Árni.

Hann nefnir þarna til sögunnar sjávarútvegsráðherra allt frá tíð Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, sem kom á hinu umdeilda kvótakerfi: Þorstein Pálsson, sig og Einar K. Guðfinnsson. Og Árni heldur áfram að greina stöðuna.

„Það sem vantar þó upp á er meiri stöðugleiki í nýliðun sem sést kannski ekki augljóslega nema ef litið er yfir lengri tíma, kannski mjög langan tíma. Gullkarfinn er líka athyglisverður því hann sýnist vera að ná sér á strik án þess að það sé stór árgangur að koma inn. Annað er auðvitað eitthvað upp og niður eins og gengur með minni stofna en þó mun meira upp. Gott mál í heildina. Jóhann Sigurjónsson og hans fólk á Hafró fyrr og síðar getur verið sátt, sem og Sigurður Ingi [Jóhannsson] ráðherra og dýralæknir.“

Árni nefnir sem sagt til sögunnar sjávarútvegsráðherra allt að Sigurði Inga, sem nú situr í þeim stóli, en stekkur yfir þá Steingrím J. Sigfússon og Jón Bjarnason, sem vissulega voru einnig sjávarútvegsráðherrar. Annað hvort hefur Árni gleymt því eða hann telur ekki vert að þakka þeim eflingu þorskstofnsins neitt sérstaklega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×