Innlent

Stoltenberg segir alvarlegt að Rússar hafi breytt landamærum Evrópu

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagins ræddi þær nýju ógnir sem bandalagið telur aðildarríki þess standa frammi fyrir við forsætis- og utanríkisráðherra í opinberri heimsókn sinni til landsins í dag. Hann segir NATO hafa aukið viðbúnað sinn í Eystrasaltsríkjunum vegna vaxandi umsvifa Rússa við landamæri þeirra.

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO kemur hingað til lands í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann heimsótti Landhelgisgæsluna og Keflavíkurflugvöll í dag, ásamt því að eiga fundi með forsætisráðherra og Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra.

Þetta er fyrsta heimsókn Stoltenbergs til Íslands frá því hann tók við embætti framkvæmdastjóra NATO. En hann þekkir hins vegar vel til málefna Íslands frá því hann var þingmaður og ráðherra í Noregi.

„Við áttum mjög góðar viðræður um samstarf Íslands og NATO ásamt þróun mála innan bandalagsins og þau verkefni sem blasa við því. Til að mynda ræddum við ástandið í austur Evrópu, ógnina af ISIS, þjóðaröryggi í Afganistan og mikilvægi netöryggis,“ sagði forsætisráðherra að loknum fundi með Stoltenberg.

Leiðtogar Eystrasalsríkjanna, yngstu NATO ríkjanna, hafa lýst miklum áhyggjum vegna aukinna umsvifa Rússa við landamæri ríkja þeirra.

„Við sjáum enga bráða ógn standa að nokkru aðildarríki NATO. Ekki heldur Eystrasaltsríkjunum. En við tökum hins vegar eftir því að Rússar hafa aukið hernaðarumsvif sín og nærveru sína við landamæri NATO ríkja og beitt hervaldi gegn Úkraínu,“ segir Stoltenberg.

NATO hafi brugðist við með aukinni nærveru herdeilda og skipa á Eysrasalti, enda væri árás á eitt NATO ríki árás á þau öll.

Samband NATO og Rússlands hefur ekki verið eins stirt síðan í kalda stríðinu. Getum við sagt að nú eigum við í volgu stríði við þá eða hefur nýtt kalt stríð hafist?

„Ég vil ekki kalla það kalt stríð eins og við áttum í allt fram að falli Berlínarmúrsins. En við erum í mjög erfiðri stöðu sem varað með um langa hríð. Það ríkir óöryggi og óstöðugleiki og það er alvarlegt að Rússar hafa sýnt vilja til að nota hernaðarmátt sinn til að breyta landamærum í Evrópu. Hafa innlimað hluta af öðru landi - og það er í fyrsta skipti sem það gerist frá því í seinni heimsstyrjöldinni,“ segir Jens Stoltenberg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×