Innlent

Afleitt að ekki sé samningafundur um helgina

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Páll Halldórsson formaður Bandalags háskólamanna.
Páll Halldórsson formaður Bandalags háskólamanna. MYND/Vísir
Formaður Bandalags háskólamanna gagnrýnir að enginn samningafundur sé fyrirhugaður í kjaradeilu BHM og ríkisins um helgina. Mikið ber enn í milli og lítið sem ekkert hefur þokast í samkomulagsátt. Tæpur hálfur mánuður er síðan að verkfallsaðgerðir BHM hófust.

Ríflega fimm hundruð félagsmenn BHM hófu verkfallsaðgerðir sínar 7. apríl síðastliðinn. Þetta eru geislafræðingar, náttúrufræðingar, lífeindafræðingar og ljósmæður sem starfa á Landspítalanum. Þá lögðu lögfræðingar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu einnig niður störf.

Síðasti samningafundur var á fimmtudaginn og verður næsti fundur ekki fyrr en eftir helgi. Páll Halldórsson formaður BHM gagnrýnir að enginn samingafundur sé fyrirhugaður um helgina. „Okkur finnst það alveg afleitt. Vegna þess að við teljum það mjög mikilvægt að það sé unnið hörðum höndum að því að leysa þessa deilu en ríkið var ekki tilbúið til að mæta fyrr en á mánudag,“ segir Páll.

Hann segir lítið hafa þokast í samkomulagsátt undanfarna daga. „Það má eiginlega segja að staðan sé alveg óbreytt frá því sem verið hefur fram til þessa. Ríkið er ekki tilbúið að bjóða meira en þessi 3,5% og meðan svo er þá hreyfumst við ekki neitt,“ segir Páll.

Páll segir enn mikinn hug í sínu fólki. „Það er engin bilbugur á okkur,“ segir Páll. Á mánudaginn hefjast frekari verkfallsaðgerðir BHM. „Það er bæði Fjársýslan og Matvælastofnun. Fjársýslan fer í tímabundið verkfall til 8. maí en Matvælastofnun í ótímabundið verkfall,“ segir Páll Halldórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×