Erlent

Viðurkenna stórfelldar njósnir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ekkert einkamál Bresk stjórnvöld áskilja sér allan rétt til að fylgjast með.
Ekkert einkamál Bresk stjórnvöld áskilja sér allan rétt til að fylgjast með. Vísir/AFP
Breska leyniþjónustan telur sig vera í fullum rétti til að njósna um netsamskipti fólks. Þetta fullyrðir Charles Farr, yfirmaður breskrar ríkisstofnunar sem sér um öryggismál og baráttu gegn hryðjuverkamönnum, Office for Security and Counter Terrorism.

Hann segir bresk lög gera greinarmun á „innri“ og „ytri“ samskiptum, og engar hömlur séu lagðar á eftirlit með „ytri“ samskiptum, sem eru hvort eð er fyrir opnum tjöldum. Þar undir falli meðal annars samskipti á Facebook og Twitter, leitarniðurstöður á Google og fleira þesslegt.

Til þess að njósna um „innri“ samskipti þarf hins vegar opinberan úrskurð í hverju tilviki.

Þetta er í fyrsta sinn sem bresk stjórnvöld birta opinberlega upplýsingar um stefnu sína gagnvart njósnum um netsamskipti almennings. Þetta gerðu þau nauðbeygð vegna kæru frá nokkrum mannréttindasamtökum, þar á meðal Amnesty International og Privacy International.

Greinargerð Farrs er upp á 48 blaðsíður og hefur verið birt á vefsíðum Privacy International og fleiri mannréttindasamtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×