Innlent

Hafnarstjóri: Ekki þurfi að spyrja að leikslokum ef unglingar fá krampa í sjónum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Vinsælt hefur verið hjá unglingum að skora hver á annan að stökkva í sjóinn.
Vinsælt hefur verið hjá unglingum að skora hver á annan að stökkva í sjóinn. MYND/GRINDAVÍK/SKJÁSKOT
„Ég hef mestar áhyggjur af því að börnin fái krampa,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík. Hann vill brýna fyrir börnum og unglingum að stökkva ekki í hafnir án eftirlits. Þetta kemur fram á vefsíðu Grindavíkurbæjar.

Vinsælt hefur verið hjá unglingum að skora hver á annan að stökkva í sjóinn. Eins og fram kom á Vísi í gær benti skólastjóri Hagaskóla foreldrum unglinga við skólann á að eins og meðal annars mætti sjá á vefsíðu YouTube væru krakkar að stunda það að stökkva í hafnir. Meðal annars hafa krakkar verið að stökkva í Reykjavíkurhöfn og í smábátahöfnina við Bakkavör.

Sjá má sjá myndbönd af unglingum stökkva í sjóinn á vefsíðunni YouTube.

Sigurður segist brýna það fyrir fólki að synda ekki á milli bryggja og ekki megi vera lengur í vatninu en í þrjár mínútur í mesta lagi. Annars er hætta á ofkælingu.

Fái unglingarnir krampa þurfi ekki að spyrja að leikslokum. Hann leggur til að allir, bæði foreldrar og skólar, brýni fyrir unglingunum að fara ekki langt frá bryggjum. Þeir sem stökkva út í verði að fara beint upp úr.

Farvegur fyrir ævintýramennsku í björgunarsveitum

Best væri að hafa einhverja áætlun um hvernig hægt er að fá hjálp ef eitthvað fer úrskeiðis. Ekki bara láta sig gossa og synda af stað án nokkurra varúðarráðstafana.

Hann nefnir að besti farvegurinn fyrir ævintýramennsku af þessum toga séu unglingadeildir björgunarsveitanna. Þar fari fram alls konar skemmtilegar æfingar í sjó en undir eftirliti. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×