Snjóflóðið féll í hlíðum Everest í um 5800 metra hæð um klukkan korter í sjö að staðartíma, um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Þrettán eru látnir hið minnsta og eru hinir látnu allir þaulvanir fjallaleiðsögumenn sem lagt höfðu í hlíðar fjallsins snemma dags til að undirbúa leiðina fyrir göngumenn dagsins. Snjóflóðið er það mannskæðasta sem orðið hefur.
Vilborg Arna hlúði að hinum slösuðu í sjúkratjaldi í dag og aðstoðaði eftir bestu getu. „Ég spurði hana hvernig henni liði og hún sagði „bara“. Ég veit hvað það þýðir. Það er öruggt mál að það er ekki auðvelt að vera þarna í dag,“segir Sólveig.
Hún segir daginn sinn ekki hafa verið auðveldan, ekki hafi náðst í Vilborgu símleiðis því ekkert símasamband hafi verið á svæðinu eftir að snjóflóðið féll. Henni létti því vitanlega þegar hún sá færslu Vilborgar á Facebook „I‘m ok!“.
Hvert heldurðu að framhaldið verði?
„Hún hefur engu uppljóstrað, en ég er nokkuð viss í mínu hjarta að hún haldi áfram ef það er möguleiki. Ég verð samt voðalega fegin þegar hún er komin niður aftur. Hún er alltaf stelpuskottið.“

Íslendingarnir tveir, þau Vilborg Arna og Ingólfur Ragnar Axelsson, eru í hæðaraðlögun í grunnbúðum og ætluðu að leggja á tindinn í næsta mánuði. Þau vöknuðu við hávaðann í snjóflóðinu en eru bæði heil á húfi og fréttastofa náði tali af Vilborgu í gegnum tölvu í morgun.
„Þetta er virkilega erfiður dagur og allir hér hafa misst í dag,“ sagði hún. „Sherparnir hafa misst fjölskyldumeðlimi og vini. Við hin höfum misst fyrirmyndir og þeir sem hafa verið hér í mörg ár hafa margir misst félaga sína."
Vilborg og Ingólfur misstu ekki leiðsögumenn sína í slysinu en sherpar úr þeirra hópi létu lífið. Talið er að allt að 100 manns hafi orðið fyrir flóðinu og voru slasaðir fluttir í sjúkratjöld í grunnbúðum. Þar lagði Vilborg Arna sitt af mörkum með því að hlúa að sárum minna slasaðra.
Vilborg gekk í gær upp í fyrstu búðir í hæðaraðlögun. Þær eru í sömu hæð og flóðið féll í og eru búðirnar á Pumo Ri fjalli sem er það hættulegasta í öllum Himalayafjallgarðinum. 19. október árið 1988 lögðu tveir Íslendingar, þeir Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson, á fjallið en þeir náðu aldrei tindinum. Þremur árum síðar gekk Ari Kristinn Gunnarsson á Pumo Ri til að heiðra minningu þeirra, en hann féll í sprungu á leiðinni niður og lét lífið.
