„Ég safnaði nákvæmlega 1.246.500 krónum í fyrra og ofan á það lagði Velferðarsjóður barna 250.000 beint inn á Rjóðrið. Ég reikna með því að ég geti safnað enn meiru núna,“ segir athafnamaðurinn Jón Gunnar Geirdal.
Hann ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Rjóðrinu, hvíldar- og æfingarheimili fyrir langveik börn, í ár eins og hann hefur gert síðustu ár. Í fyrra var hann sá einstaklingur sem safnaði mestum peningum í áheitasöfnun Íslandsbanka en fast á hæla hann fylgdi stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson. En hver ætli verði helsti keppinautur Jóns Gunnars í ár?
„Það væri gaman ef það væri vinur minn Ólafur Darri. Við vorum hnífjafnir undir lokin í fyrra.“
Jón Gunnar er í einu orði sagt óþolandi, að eigin sögn, þegar hann safnar áheitum fyrir hlaupið.
„Nú er „operation óþolandi“ byrjað. Nú verður blásið í óþolandi herlúðra og fólk getur farið að fá kvíðahnút í magann,“ segir Jón Gunnar og bætir við að enginn sé óhultur þegar hann fer á fullt að safna áheitum.
„Minn helsti undirbúningur er að vera í símanum og áreita fólk. Það er enginn látinn í friði þegar ég byrja að hringja og væla út peninga.“
Jón Gunnar hljóp tíu kílómetrana á rúmlega fjörutíu mínútum í fyrra en hefur best náð 38.54 mínútum. Hann hefur hlaupið lengra en það endaði með ósköpum.
„Ég hef engan drifkraft í maraþonvegalengdir. Reykjavíkurmaraþonið er eitt skemmtilegasta hlaup ársins og ég vil ekki eyðileggja drifkraftinn með því að líða illa.“
„Minn helsti undirbúningur er að vera í símanum og áreita fólk“
