Skoðun

Styrkjum heilbrigðistengda atvinnustarfsemi

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Hugmyndir flestra um heilbrigðiskerfi er spítali, heilsugæsla, læknastofur og hjúkrunarheimili. Þessi starfsemi heilbrigðiskerfisins er hluti af stærri köku sem kalla má heilbrigðisiðnað. Til hans telst fleira en fyrrnefndir þættir eins og háskólar og framhaldsskólar sem mennta fagfólk í heilbrigðisvísindum, lyfjafyrirtæki, aðilar í sjúkraflutningum, fyrirtæki sem þróa vörur fyrir heilbrigðisþjónustu, þjónustufyrirtæki sem þjóna heilbrigðiskerfinu, fyrirtæki sem bjóða upp á heilsutengda þjónustu (Bláa lónið) auk fleiri aðila sem starfa á þessum vettvangi (Krabbameinsfélagið).

Undanfarin misseri hafa aðilar í heilbrigðistengdri starfsemi unnið að eflingu og mótun íslenska heilbrigðisklasans (Iceland Health). Markmiðið með heilbrigðisklasasamstarfinu er að vinna að stefnumótun fyrir heilbrigðistengda atvinnustarfsemi, þar sem markmiðið er að efla verðmætasköpun meðal fyrirtækja og stofnana innan greinarinnar.

Mikilvæg fyrir þjóðarbúið

Á Íslandi starfar fjöldi fyrirtækja sem þróa vörur fyrir heilbrigðismarkað eins og Össur, Actavis og Nox Medical auk fjölda annarra. Fyrirtæki í þessari grein hafa yfir 3.000 starfsmenn og þeim fjölgar, því nýlega tilkynnti fyrirtækið Alvogen að það stefndi á að ráða yfir 200 manns á næstu árum. Þessi fyrirtæki sem þróa vörur fyrir heilbrigðismarkað eru gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðarbúið. Framlag þeirra til rannsókna er mælt í milljörðum og störfin sem þessi fyrirtæki skapa eru hálaunastörf og eftirsótt. Það er álit aðila í heilbrigðisklasanum að þessa starfsemi megi auka til muna með einföldum aðgerðum, t.d. með skattaívilnunum og hagstæðari rekstrarskilyrðum. Umhverfið sem þessum fyrirtækjum er skapað til að starfa hér á Íslandi er að mörgu leyti gott, en til að efla samkeppnishæfni þessara fyrirtækja þarf bæta starfsskilyrði þeirra.

Tíu þúsund störf

Með einbeittum aðgerðum, áhuga og vilja er hægt að fjölga þessum störfum úr ca. 3.000 í yfir tíu þúsund á næstu tíu árum með því að bæta starfsskilyrði þessara fyrirtækja. Þar með er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, fjölga eftirsóttum störfum og tryggja að vel menntað fólk velji að starfa á Íslandi. Þessi fyrirtæki starfa á alþjóðlegum mörkuðum, þau laða að erlent starfsfólk og erlent fjármagn. Það er samdóma álit þeirra aðila sem standa að heilsuklasanum að þessi fyrirtæki séu jákvæð fyrir efnahagslífið, þau tryggja vísindastörf í landinu, þau skapa aðlaðandi starfsumhverfi fyrir ungt velmenntað fólk og auka hag heildarinnar.

Fram undan er frekari vinna aðila innan heilbrigðisklasans við að þróa stefnumótun fyrir heilbrigðisiðnaðinn og hvernig hægt er að styrkja þessa mikilvægu atvinnugrein sem er ljósið í skammdeginu.




Skoðun

Sjá meira


×