Skoðun

Tölum vinnustaðaeinelti í kaf!

Hildur Jakobína Gísladóttir skrifar
Þann 8. nóvember er dagur gegn einelti. Að þessu sinni er dagurinn tileinkaður vinnustaðaeinelti (e. mobbing/workplace bullying). Fram til þessa hefur einelti af hálfu fullorðinna verið „tabú“ á Íslandi og því hefur verið erfitt að taka á því á íslenskum vinnustöðum. Sama og engin úrræði eru til fyrir þolendur og oftar en ekki eru þeir látnir víkja af vinnustöðum frekar en gerendur. Vinnustaðaeinelti, eins og það er skilgreint í reglugerð nr. 1000/2004, er ein tegund ofbeldis og ofbeldismál eiga það flest sameiginlegt að þolendur upplifa mikla skömm og reyna að fela ofbeldið. Þá fylgir ofbeldinu mikil vanlíðan. Þolendur vinnustaðaeineltis kvíða jafn mikið fyrir að fara í vinnuna eins og þolendur heimilisofbeldis að fara úr vinnunni. Báðir hópar upplifa skömm yfir því að hafa „sætt sig við“ ofbeldið og hafa ekki reynt að stöðva það.

Einelti er ofbeldi

Í dag er farið að taka á heimilisofbeldi með markvissari hætti en áður á Íslandi. Það gefur þeim sem fyrir því verða vissu um að vandinn sé viðurkenndur og að þeir geti leitað sér hjálpar. Það er ekki ýkja langt síðan heimilisofbeldi var „tabú“ eins og vinnustaðaeinelti er dag. Sem betur fer hefur það breyst.

Eins og fram hefur komið eru fá úrræði í dag fyrir þolendur vinnustaðaeineltis. Gögn og rannsóknir erlendis frá sýna að það hefur verið einblínt of mikið á það að eitthvað sé að þolandanum og að þess vegna hafi hann/hún orðið fyrir eineltinu. Með öðrum orðum, að hann/hún hafi boðið upp á eineltið með því að vera öðruvísi. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekkert að þolendum vinnustaðaeineltis, frekar en þolendum annars konar ofbeldis. Í dag myndi ekki líðast að segja að þolendur heimilisofbeldis bjóði upp á slíkt ofbeldi. Það eru ytri þættir sem skýra ofbeldið. Það er löngu tímabært að hugsa um einelti sem ofbeldi en ekki samskiptavanda. Það er líka tímabært að hlusta á þolendur vinnustaðaeineltis, taka mark á þeim og veita þeim sambærilega aðstoð og þolendum annars ofbeldis er veitt. Þolandi má ekki upplifa að eineltið sé honum að kenna. Það veldur honum öðru áfalli. Það verður að hlusta og taka mark á fólki sem upplifir ofbeldi því það er nákvæmlega þessi upplifun sem þarf að vinna með. Einelti á vinnustað má ekki vera tabú, því ofbeldi þrífst á þögninni. Tölum um einelti – tölum það í kaf!




Skoðun

Sjá meira


×