Skoðun

Hækkun vsk á bækur – og fer þá allt í vaskinn?

Sigurður Pálsson skrifar
Undanfarnar vikur hefur verið mikil umræða um fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á bækur og telja íslenskir bókaútgefendur að að þeim sé vegið. Í umræðunni virðist gleymast að þessi atvinnugrein hefur getu til hagræðingar og liggur það fyrst og fremst í tæknibreytingum þegar kemur að rafbókum.

Að mínu mati þurfa bókaútgefendur að horfast í augu við að rafræn útgáfa (leiga eða kaup) er líklega það sem koma skal, að minnsta kosti þegar horft er til kennslubóka bæði á framhaldsskólastigi, háskólastigi og jafnvel hluta skáldsagna.

Bókaútgefendur hafa bent á að rafræn útgáfa sé lítið ódýrari en hefðbundin bókaútgáfa. Ég tel að birgðahald, prentun og dreifing vegi þyngra en af er látið. Rafbókavæðing hefur möguleika á að ná betur til yngri lesenda með minni tilkostnaði. Yngri lesendur sækja sér nú þegar efni gegnum netið, sjónvarpið eða símann. Þegar kemur að fræðibókum og kennslubókum ætti rafbókin að geta haslað sér völl bæði á framhaldsskólastigi og sér í lagi á háskólastigi.

Háskólastigið hefur ákveðna sérstöðu þegar kemur að kennsluefni. Þar er um hærri fjárhæðir að tefla og líftími bóka þar er mun styttri – sem gerir útgáfu þeirra á prenti óhagkvæmari til lengri tíma litið. Um 75% þeirra eru erlendar og þar með innfluttar og kemur langstærsti hluti þeirra frá Bretlandi og Bandaríkjunum.

Umræðan hefur verið að nemendur útvegi sér auknum mæli námsefni á netinu, oft án endurgjalds. Hættan hér er að það námsefni uppfylli ekki þau gæðaviðmið sem háskólastigið gerir í raun kröfu um eða á að gera.

Hvar liggur ávinningurinn?

Fjárhagslegur ávinningur af notkun rafbóka fer vaxandi, auk þægindanna sem klárlega eru fyrir hendi. Segja má að sú kynslóð sem nú vex úr grasi hafi ekki eins sterk tengsl við prentaða bók. Sú aðferðafræði sem hefur verið að hasla sér völl hjá þeim sem bjóða upp á rafrænt námsefni er að bjóða það til leigu til dæmis í 180 til 360 daga. Verðlagning rafræna efnisins hefur líka verið að mótast og er verð rafbókar oft 60% af verði prentaðar, sem gerir að sjálfsögðu innflutning hennar að mun dýrari valkosti.

Sjá dæmi í þessum hlekk: https://www.coursesmart.co.uk/options-futures-and-other-derivatives-global/john-hull/dp/9781447919230

 Hvar liggja heildarhagsmunirnir?

Vandinn í dag liggur í því að það færist í vöxt að nemendur kaupi færri bækur og jafnvel engar bækur. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á gæði námsins sem háskólar landsins hafa síður vilja ræða sérstaklega síðustu árin þar sem fjárframlög til þeirra hafa verið skert.

Kennsluefni er að lækka í verði með tilkomu rafbókanna – Hverjir hagnast?

Höfundarréttur er varinn; Nemandi borgar minna; Gæði náms aukast ef fleiri nemendur nálgast kennsluefnið.

Hvar liggur hindrunin?

Safna þarf upplýsingum um hvaða titlar/bækur séu lagðir til grundvallar í námskeiðum á háskólastigi. Þetta nær til skyldulesningar auk hliðsjónarbóka.

Það er enginn gagnagrunnur til sem heldur utan um bækur á E-formati sem nær til virkra kennslubóka á háskólastigi á Íslandi. Sama gildir um kennslubækur á framhaldsskólastigi.

Hver væri draumastaðan?

Virkar kennslubækur á framhalds- og háskólastigi í boði á einu svæði eða í gegnum eina veitu þar sem öll formöt koma fram.

1 Hér er spurningin hvort menntamálaráðuneytið eigi að draga sig í hlé og láta einkaaðila spreyta sig við að miðla námsefni rafrænt til nemenda en að svo stöddu er enginn innlendur aðili að miðla virku námsefni á framhalds- og háskólastigi á rafrænu formi.

2 Vilja stjórnvöld hafa einhver áhrif á hvernig efninu verður miðlað til framtíðar til dæmis í gegnum einhverja sameiginlega veitu, ef til vill í samstarfi við aðila á Norðurlöndunum þar sem nám á háskólastigi er svipað að uppbyggingu og hér? Hér gæfist til dæmis tækifæri til að innheimta svokallað námsefnisgjald milliliðalaust samhliða skrásetningargjaldinu.

Ég held að í ljósi þeirra tæknibreytinga sem við höfum verið að sjá undanfarin misseri sé mikilvægt að móta skýra stefnu til framtíðar í þá veru að aðgengi okkar að námsefni sé með hagkvæmum hætti hvort sem það er á prenti eða því miðlað rafrænt.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×