Skoðun

Sjálfstætt ráðuneyti dómsmála?

Jónas Þór Guðmundsson skrifar
Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 30. janúar síðastliðinn spurðum við hvort nægilega vel hefði verið búið að málefnum dómstóla og réttarfars í yfirstjórn ríkisins og þá einkum í nýju innanríkisráðuneyti sem tók til starfa í ársbyrjun 2011. Töldum við margt benda til að sú breyting á Stjórnarráðinu sem þá var gerð hefði leitt til þess að málaflokkurinn fengi nú minna vægi og athygli en áður. Niðurstaða okkar var sú að ef ekki tækist að bæta stöðu dómstólanna hlyti að koma til skoðunar hvort ástæða væri til að endurvekja sjálfstætt ráðuneyti dómsmála.

Vísi að sjálfstæðu dómsmálaráðuneyti má rekja til upphafs heimastjórnar árið 1904 og stofnunar Stjórnarráðs Íslands en ein af þremur skrifstofum þess fór með dóms-, skóla- og kirkjumál. Frá 1917 nefndust skrifstofurnar deildir og 1921 kom ráðuneyti í stað deildar. Ráðuneytin voru þá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Árið 1947 voru skólamálin flutt í forsætisráðuneytið. Saga Stjórnarráðsins verður ekki rakin frekar hér en þó skal nefnt að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fékk heitið dóms- og mannréttindaráðuneyti árið 2009 og í ársbyrjun 2011 voru dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sameinuð í eitt innanríkisráðuneyti.

Sameiningin var liður í víðtækri breytingu á Stjórnarráðinu þar sem ráðuneytum var fækkað og þau stækkuð með sameiningum. Í tilviki þessara ráðuneyta lágu til grundvallar önnur sjónarmið en þau að málaflokkarnir hefðu verið taldir hafa sérstaka efnislega samstöðu.

Löngum var litið á dóms- og kirkjumálaráðuneytið sem mikilvægt ráðuneyti, t.d. í stjórnarmyndunum, þótt ráðuneytið væri í seinni tíð hvorki sérlega stórt né helsta andlag flokkspólitískra stefnumiða.

Í mörgum tilvikum var ráðherra dómsmála einnig ráðherra annarra ráðuneyta. Árið 1992 var til dæmis sami maður sjávarútvegsráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra og stýrði sem slíkur þeim umfangsmiklu breytingum á dómstólaskipaninni sem gengu í gildi það ár.

Einn af grunnþáttunum Dómstólarnir og starfsemi þeirra eru einn af grunnþáttum stjórnskipunar ríkisins. Eðlilegt er að skipan Stjórnarráðsins endurspegli þetta mikilvægi með því að dómsmálum og skyldum efnum sé komið fyrir í sjálfstæðu ráðuneyti en ekki í skrifstofu stærra ráðuneytis.

Einnig má setja spurningarmerki við þá tilhögun að skipa saman svo ólíkum málaflokkum sem dómsmálum og vegagerð. Þótt ekki sé ómögulegt að byggja upp sérþekkingu innan slíks „stór-ráðuneytis“ er hættan sú að áherslan á dómsmálin verði minni en þörf er á.

Sjálfstætt dómsmálaráðuneyti hefur ekki óhjákvæmilega í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Þvert á móti má halda því fram með rökum að traust og skilvirkt réttarkerfi spari ríki og borgurum þess útgjöld, öfugt við vanhaldið kerfi.

Með sjálfstæðu dómsmálaráðuneyti væri leitast við að tryggja að dóms- og réttarfarsmál fengju meiri athygli en þau fá nú. Það er ekki eingöngu æskilegt heldur beinlínis nauðsynlegt. Því ber að fagna þeim hugmyndum sem fram hafa komið hjá ráðamönnum á síðustu vikum um endurreisn dómsmálaráðuneytisins. Þær samræmast einnig vel stefnu núverandi ríkisstjórnar um að gera grundvallarbreytingu á dómskerfinu með upptöku millidómstigs.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×