Skoðun

Ferðaþjónustufyrirtæki í umhverfismat? Af hverju ekki?

Ólafur H. Jónsson skrifar
Nú þegar mikið er rætt um náttúru Íslands og mörgu lofað bæði til verndar náttúrunni og mannfólkinu kom í huga mér hugmynd sem skotið var að mér.

Í dag eru nær allar framkvæmdir matsskyldar og settar í umhverfismat, grenndarkynningu o.s.frv. Útvega þarf fjölda leyfa til þess að fá niðurstöðu um það hvort hægt sé eða megi framkvæma hitt og þetta víða um land. Virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar eru matsskyldar og fara í umhverfismat. Smæstu verkefni verða að fara í gegnum slíkan hreinsunareld, sem í raun er hið besta mál. Víkka mætti út hugtakið umhverfismat þannig að það nái ekki aðeins yfir hugsanlegar framkvæmdir heldur einnig umgang mannsins á hverjum stað.

Hvað er umhverfismat?

„Mat á umhverfisáhrifum er ferli þar sem metin eru á kerfisbundinn hátt þau áhrif sem framkvæmd kann að hafa á umhverfið, áður en tekin er ákvörðun um hvort leyfa skuli framkvæmd.“ (skv. skilgr. Skipulagsstofnunar)

En hvað með öll ferðaþjónustufyrirtækin? Hvað með t.d. hótel, gistihús, rútufyrirtæki, bílaleigur, ferðaskrifstofur, þyrlufyrirtæki og önnur ferðaþjónustufyrirtæki sem nýta náttúru Íslands? Mér er ekki kunnugt um að til sé vottun eða alþjóðlegur eða íslenskur staðall um verndun okkar helstu náttúrustaða sem snýr að ferðaþjónustuaðilum á Íslandi.

Sömu sögu má segja um helstu náttúruperlur Íslands, þær ætti líka að setja í umhverfismat. Ekkert umhverfismat er til í dag. Hversu marga ferðamenn þolir hver náttúruperlan fyrir sig? Hvað má hver ferðaþjónustuaðili selja mörgum ferðamönnum inn á einstakar náttúruperlur? Í ljósi reynslunnar af gjaldtöku í Reykjahlíð í sumar er slíkt umhverfismat á ferðaþjónustufyrirtæki sem og inn á einstaka náttúruperlur nauðsynlegt.

Má ekki bæta við nýrri grein/túlkun í núverandi náttúruverndarlög þar sem ferðaþjónustuaðilum með einhverja lágmarksveltu verði gert skylt að fara í umhverfismat? Eiga þessi ferðaþjónustufyrirtæki ekki líka að greiða sérstaklega fyrir það að selja viðskiptavinum sínum inn á náttúruperlur Íslands? Ferðamaðurinn á svo að greiða inn á hvern stað fyrir sig og þá fyrir það sem hann velur að njóta. Ferðamenn heimsækja Ísland út af náttúrunni og ferðamenn vilja greiða fyrir það.

Ættu öll að greiða

Stærstu skemmtiferðaskip heimsins leggjast að bryggju hér á landi og frá þeim streyma tugir þúsunda ferðamanna til að skoða Ísland án nokkurs umhverfismats af hálfu þeirra sem flytja þá inn (Atlantik og Iceland Travel eru umboðsfyrirtæki fyrir um 100 þúsund manns í yfir 100 skemmtiferðaskipum á ári). Skemmtiferðaskip menga með koltvísýringi á við 10.000 bíla á sólarhring í þá 100 daga sem þau liggja við bryggjur landsins. Í dag fer ekki króna af hafnargjöldum til verndar náttúrunnar.

Hér á landi er mjög stór floti rútufyrirtækja (t.d. Iceland Excursions, Allrahanda, Reykjavík Excursion, Kynnisferðir og SBA) með hundruð langferðabíla. Allir ofangreindir ferðaþjónustuaðilar auglýsa og selja skipulagðar hópferðir inn á náttúruperlur sem eru ýmist í eigu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Þessi fyrirtæki eða eigendur þeirra eiga engar náttúruperlur. Af hverju er þessum fyrirtækjum leyft að fara um Ísland með viðskiptavini sína án þess að þau séu látin greiða fyrir slíkt og þau sett í umhverfismat? Er ekki kominn tími til að þessi fyrirtæki greiði eitthvað til náttúrunnar? Þessi fyrirtæki eða viðskiptavinir þeirra greiða ekki og hafa ekki greitt í tugi ára eina einustu krónu til verndar eða sjálfbærni náttúrunnar.

Og þá að þeim ferðaþjónustuaðilum sem líka ættu að greiða, t.d. hótel, Bláa lónið/Jarðböðin, gistihús, bílaleigur og hvalaskoðunarfyrirtæki. Viðskiptavinir þeirra telja hundruð þúsunda og það kallar einfaldlega á að þessi fyrirtæki fari í umhverfismat. Bæði út af fráveitum, skólpi, lyfjaúrgangi er rennur út í náttúruna og útblásturs-/affallsmengun ferðamanna. Ferðamenn gera sér líklega ekki grein fyrir afleiðingum þess á náttúruna þegar til lengri tíma er litið. Öll þessi fyrirtæki ættu líka að greiða sérstaklega til verndunar náttúrunni. Í raun ætti ferðaþjónustan að fagna því að fara í umhverfismat og fá jafnframt tækifæri til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, taka þátt í verndun náttúrunnar og stuðla að bættu aðgengi að náttúruperlum. Sýna í verki að atvinnugreinin vill vera ábyrg. Með smábreytingu á frægri tilvitnun úr Njálu, en með nýrri merkingu mætti segja:

„Ber er hver að baki nema umhverfismat hafi.“




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×