Skoðun

„Störukeppni“ um LbhÍ

Sveinn Hallgrímsson skrifar
Í Fréttablaðinu 26. september 2014 er grein eftir Ólaf Arnalds prófessor um málefni LbhÍ. Ég starði lengi á fyrirsögn greinarinnar áður en ég áttaði mig á fyrirsögninni „störukeppni“. Hélt að hér hlyti að vera „fagorð“ sem prófessorinn notaði. Svo reyndist ekki vera. Ég verð að fá að birta athugasemdir og leiðréttingu við greinina, svo margt er missagt eða rangt með farið. Ólafur er að gera athugasemdir við pistil Haraldar Benediktssonar á vef Skessuhorns.

1. Ólafur segir að Haraldur telji að málefni LbhÍ séu komin í störukeppni „…menntamálaráðherra, sem vill sameina LbhÍ og Háskóla Íslands, og yfirstjórnar og akademískra starfsmanna skólans“. Þetta er ekki rétt. Samkvæmt mínum heimildum er háskólaráð LbhÍ ekki sammála því að sameina þessar stofnanir, enda átti ekki að sameina, heldur átti að leggja LbhÍ niður. Kennslu á háskólastigi átti að færa suður, fara undir verkfræði- og raunvísindasvið HÍ. Það átti því að leggja LbhÍ niður, að minnsta kosti kennslu á háskólastigi.

2. Alls ekki allir „akademískir starfsmenn“ skólans eru sammála því að flytja starfsemina til Reykjavíkur. Meirihluti akademískra starfsmanna á Keldnaholti í Reykjavík vill flytja starfsemina undir HÍ. Á það má einnig benda að aðrir starfsmenn skólans á Hvanneyri eru andvígir flutningi til Reykjavíkur. Líklega er það fyrir tilverknað sumra „akademískra“ starfsmanna skólans að hluti af kennslu hefur verið fluttur suður á Keldnaholt! Sem sagt, stofnuð enn ein háskóladeildin. Ekki sameinað, heldur sundrað!

3. Sjálfstæður skóli segir þú, Ólafur, ef við sameinumst? Eins og ég sagði áður verður enginn skóli, háskólakennsla á Hvanneyri, ef LbhÍ verður sameinaður HÍ. Kennsla á háskólastigi verður færð til Reykjavíkur, samkvæmt tillögum menntamálaráðherra. Á Hvanneyri yrði áfram bændadeild, framhaldsskólastig, fjós með kúm og fjárhús á Hesti. Tilraunir yrðu framkvæmdar og fjarstýrt úr Reykjavík. Það yrði framkvæmt á sama hátt og í Sovétríkjunum forðum. Sennilega yrðir þú, Ólafur, yfir jarðræktartilraunum, sætir á Keldnaholti og hringdir upp eftir til að gefa fyrirskipanir um að bera á, eða slá, eins og Moskvuvaldið gerði í Sovét.

Hvanneyringar, velunnarar samfélagsins á Hvanneyri og skólans, vilja samstarf við HÍ, sem er báðum til gagns og ánægju. Við viljum ekki leggja niður starfsemi á Hvanneyri eftir 125 ára farsælt skólastarf. Minni einnig á að kennsla á háskólastigi hefur farið fram á Hvanneyri í 67 ár! HÍ átti kost á að hefja kennslu í búvísindum um 1950, en hvorki vildi né gat það!




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×