„Ég ætla að ræða við konur sem hafa valið sér að fara í störf sem talin hafa verið hefðbundin karlastörf,“ segir Sandra Hlín Guðmundsdóttir, meistaranemi í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.
Sandra vinnur að meistararannsókn sem snýr að konum sem hafa starfað í því sem myndi flokkast sem hefðbundin karlastörf.
„Ég mun ræða við þær um þeirra upplifun, hverjir séu kostir þess að vera kona í hefðbundnu karlastarfi og hverjir séu neikvæðu þættirnir við það. Ég mun einnig ræða við þær um þann stuðning sem þær fengu í starfi, ef einhver var, og hvort þær hefðu viljað fá stuðning.
Ástæðan fyrir því að ég er að gera þessa rannsókn er sú að mig langar að kanna hvort náms- og starfsráðgjöf geti veitt konum sem fara í hefðbundin karlastörf eða nám sem tengist þeim einhvern stuðning, ásamt því að bæta náms- og starfsfræðslu, þá sérstaklega með tilliti til þess þegar einstaklingar velja sér nám eða starf sem er talið óhefðbundið fyrir þeirra kyn,“ segir hún.
Sandra óskar sérstaklega eftir að komast í kynni við konur sem unnu slík störf á árunum 1980-90 og svo mun hún bera það saman við konur sem sinna slíkum störfum í dag. Nú þegar hafa nokkrar konur sett sig í samband við Söndru en viðtölin mun hún taka 25. september til 30. október. Þær konur sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni geta haft samband við Söndru á netfangið shg2@hi.is.
Leitar að konum í karlastörfum
