Skoðun

Er Vatnajökulsþjóðgarður umhverfissóði í sjálfseyðingu?

Lárus Elíasson skrifar
Helsta ógn mannlífs er án vafa hnattræn hitun og breytingar á umhverfi henni samfara. Við horfum á mikil veðrabrigði, bráðnum jökla, hækkun sjávarborðs og líkindi á pólitískum óstöðugleika.

Ástæða þessa er öllum ljós og óhrakin, en það er losun koltvísýrings og annarra efna sem hafa áhrif á lofthjúp jarðar. Af þessum sökum er t.d. áætlað að Vatnajökull muni hverfa í þeirri mynd sem við þekkjum hann á næstu 100 árum eða svo.

Því kom það á óvart að heyra að það væri ákvörðun Þjóðgarðsins að það mætti ekki kynda með viði í skálum innan þjóðgarðsins heldur einungis með innfluttu gasi. Við dvöl í Múlaskála nýverið stakk þetta sérstaklega í augu. Á því svæði eru þó nokkrir birkiskógar og slatti af trjám sem á hverju ári brotna undan snjó og því mikið af viði sem grotnar niður. Þessi viður sleppir út sama koltvísýringsmagni hvort sem hann fúnar úti eða er brenndur inni í kamínu. Þar sem hann vex á svæðinu telst hann ekki hafa áhrif á losun CO2 (aðrir skálar á okkar leið voru kyntir með afgangstimbri og grisjunarviði sem ekki eykur heldur CO2-losun).

Gaskútarnir sem notaðir eru til upphitunar eru hins vegar aukning á CO2-losun. Bæði gasið sjálft, flutningur þess frá útlöndum og á kútum fram og til baka innanlands.

Það er léleg skýring, bæði skammsýn og sjálfhverf, að við Íslendingar séum svo fá að CO2-losun okkar skipti ekki máli. Þetta er sameiginlegt vandamál jarðarbúa og þar með verkefni mannkynsins alls. Við losum hvað mest allra þjóða per íbúa og því má ekki gleyma að öll samfélög eru byggð upp af minni einingum sem gætu þá eins sagt að „við erum svo fá að okkar hlutdeild skiptir ekki máli“. Það að skálar með opnum gashiturum eru ekki eins þurrir og jafn gott skjól regnvotum ferðlöngum, er svo bara kornið sem fyllti mælinn.

Því skora ég á Vatnajökulsþjóðgarð að endurskoða þessa ákvörðun með hagsmuni umhverfisins að leiðarljósi.

Það skal tekið fram að við fengum frábærar móttökur og aðstoð landvarðar og því ekki verið að kvarta undan starfsfólki Þjóðgarðsins né öðrum aðbúnaði.




Skoðun

Sjá meira


×