Skoðun

Kvenréttindi – mál okkar allra

Anna Katarzyna Wozniczka skrifar
Í dag, 19. júní, fögnum við í Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi kvenréttindadeginum og óskum öllum íbúum landsins til hamingju með daginn!

Hlutverk samtakanna, sem eru nú á sínu ellefta starfsári, hefur alltaf verið að sameina, takast á við og ljá hagsmuna- og áhugamálum kvenna sem sest hafa að á Íslandi rödd. Markmið samtakanna er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á öllum sviðum þjóðlífsins.

Samtökin eru opin öllum konum af erlendum uppruna sem búsettar eru á Íslandi, en þrátt fyrir að við séum kvennasamtök eru málefni barna og karla af erlendum uppruna ekki síður mikilvæg í okkar augum. Við berjumst fyrir jafnrétti og betri stöðu þeirra með því að taka þátt í fundum um málefni innflytjenda og með umsagnarskrifum um lagafrumvörp.

Við hvetjum, upplýsum og eflum konur af erlendum uppruna til þess að þær geti stutt fjölskyldur sínar á árangursríkan hátt á meðan þær eru að aðlagast samfélaginu.

Við viljum sjá að þjálfun og menntun kvenna af erlendu þjóðerni sé viðurkennd og að þeim sé fært að nýta þekkingu og reynslu sína og njóta sömu tækifæra á vinnumarkaði og í samfélaginu. Raddir okkar og erlendur hreimur þurfa að heyrast á öllum sviðum.

Mismunun

Samtök kvenna af erlendum uppruna eru einnig virk í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, með því að taka málstað kvenna sem orðið hafa fórnarlömb ofbeldis og fræða þær um rétt þeirra og með því að leitast við að tryggja að þolendur séu ekki órétti beittir í þjóðfélaginu.

Í haust ætlum við að fara af stað með verkefni í samstarfi við sérfræðinga, sem hefur það markmið að greina þarfir hverrar og einnar konu sem mun taka þátt og hjálpa þeim svo á mismunandi sviðum, hvort sem það eru atvinnumál, menntun eða persónuleg mál í gegnum einstaklingsráðgjöf og hópavinnu. Við munum einnig áfram sjá um atburði eins og Söguhring kvenna í samstarfi við Borgarbókasafnið, Þjóðlegt eldhús og jafningjaráðgjöf.

Þrátt fyrir mikilvæga vinnu okkar og annarra stofnana og félagssamtaka verðum við enn vitni að sögum um meinta mismunun í launum, vinnuaðstæðum, við ráðningar eða skólainngöngu. Við þekkjum konur sem geta ekki nýtt hæfileika og/eða menntun sína í starfi. Við fréttum oft af erfiðri stöðu hælisleitenda. Við vitum að kynbundið ofbeldi er til, en við erum ekki enn búin að finna lausn á því hvernig hægt er að nálgast alla þolendur og hjálpa þeim. Þetta eru samfélagsmál sem varða okkur öll, því er eina ráðið að vinna saman – saman að betra samfélagi.



www.womeniniceland.is

https://www.facebook.com/groups/womeniniceland/

 




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×