Skoðun

Í sátt við menn og sjófugla

Helgi Lárusson skrifar
Á internetinu fer hring eftir hring sannkallað hryllingsmyndband. Það sýnir stóra sjófugla við Kyrrahafið sem eru að tætast upp að innan vegna þess að þeir gleypa í sakleysi sínu tappa og leifar af plastflöskum sem fljóta í risastórri hringrás um hafið. Myndbandið er áminning um hve margt er ennþá óunnið í heiminum við að hreinsa náttúruna af úrgangi okkar sjálfra.

Hér á Íslandi er ástandið betra en víða annars staðar. Um þessar mundir er haldið upp á 25 ára afmæli þess fyrirtækis sem á stóran þátt í því. Þann 7. júní 1989 komu fulltrúar 14 félaga saman og stofnuðu Endurvinnsluna hf. Félögin höfðu ýmissa hagsmuna að gæta en féllust öll á að vaxandi fjöldi af notuðum flöskum og dósum í umhverfi okkar gengi ekki lengur.

Komið var á fót söfnun með skilakerfi, þannig að viðskiptavinur greiddi álag ofan á drykkjarvöruumbúðir. Það fékk hann svo endurgreitt þegar umbúðunum var skilað.

Þótt ótrúlegt megi nú virðast heyrðust efasemdir um að ástæða væri til að fara út á þessa braut. Í Tímanum 10. ágúst 1989 var t.d. farið háðulegum orðum um Endurvinnsluna sem kölluð var „sósíalismi í rusli“ og klykkt út með:

„Það kemur þess vegna að því að Endurvinnslan deyr úr hráefnisskorti, vegna þess að þótt nokkrir aurar fáist fyrir dós [eða flösku] nennir enginn að standa í slíkum peðringi þegar öskukallarnir koma í hverri viku til að hirða ruslið eins og þeir hafa alltaf gert.“

Þjóðþrifaverk

Nú gera sér allir grein fyrir því að þeir sem koma umbúðum í Endurvinnsluna eru að vinna þjóðþrifaverk. Drykkjarumbúðir sjást ekki lengur á víð og dreif eða eru að minnsta kosti fljótar að hverfa þegar einhverjum verður á að henda slíku frá sér.

Ýmis háttur hefur verið hafður á hjá Endurvinnslunni á þeim 25 árum sem liðin eru frá stofnun fyrirtækisins. Árið 2008 tók Endurvinnslan í notkun nýjar talningarvélar sem nú eru komnar upp á nokkrum stöðum á landinu. Þannig var þjónustan stóraukin við viðskiptavini sem þurftu ekki lengur að flokka og telja heilar umbúðir. Jafnframt er Endurvinnslan eitt fárra sambærilegra fyrirtækja í heimi sem tekur við beygluðum umbúðum. Meira að segja á Norðurlöndum er það ekki gert og því hefur fólk þar ennþá tilhneigingu til að skilja þær eftir úti í náttúrunni.

Það er ekki bara plastið sem fengur er að því að endurvinna. Endurunnar áldósir verða að nýjum dósum á 60 dögum en við endurvinnslu áls eru einungis notuð 5 prósent þeirrar orku sem þarf til að framleiða nýtt ál.



Þá hefur Endurvinnslan frá upphafi stutt við ýmis góðgerðarfélög og verið í samstarfi við björgunarsveitir, skáta, íþróttafélög og verndaða vinnustaði.

Starfsfólk Endurvinnslunnar leyfir sér að líta yfir sögu fyrirtækisins þennan aldarfjórðung með stolti. Það er mikið ánægjuefni að eiga þátt í svo nauðsynlegu verkefni í slíkri sátt við þjóðina.

Að ekki sé minnst á sjófuglana!




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×