Skoðun

Veistu hvað þú borðar?

Hörður Harðarson skrifar
Þegar við setjumst niður og borðum mat þá skiptir okkur máli hvað er á disknum. Við sjáum hvernig maturinn lítur út, finnum hvernig hann lyktar og bragðast og upplýsingar um næringarinnihald má yfirleitt finna á umbúðunum. Það segir þó ekki alla söguna. Við viljum líka vita hvernig maturinn varð til og við hvaða aðstæður. Svörin við þeim spurningum eru sjaldnast á umbúðunum.

Í Danmörku hafa fjölmiðlar fylgt vel eftir umræðu í þjóðfélaginu um stöðu aðbúnaðar á svínabúum og gert ítarlega grein fyrir þeim aðferðum sem unnið er eftir. Þar hefur meðal annars komið fram að sýklalyf eru sett í fóður dýranna til að koma í veg fyrir sýkingar og auka vaxtarhraða. Með þessari aðferð fara lyfin ekki eingöngu í þá grísi sem þurfa á þeim að halda, heldur líka grísi sem eru heilbrigðir og hafa ekki þörf fyrir slíka lyfjagjöf sem skapar hættu á lyfjaónæmi.

Þetta er ekki gert hér á Íslandi og er reyndar ólöglegt. Hér á landi er notkun sýklalyfja í algjöru lágmarki og þau eingöngu notuð undir eftirliti dýralækna þegar þörf krefur. Þegar Íslendingar bera saman bækur sínar við kollega sína erlendis vekur það furðu hversu lítil lyfjanotkun er í svínabúskap hér á landi. Staðreyndin er að hvergi í heiminum er notað minna af lyfjum í svínabúskap en á Íslandi. Þetta leiðir vissulega til hærri kostnaðar en ávinningurinn er aukin velferð dýranna auk betri og hollari afurða sem eru góðar fréttir fyrir íslenska neytendur.

Nú stendur yfir innleiðing á nýrri og framsækinni löggjöf um velferð dýra. Svínabændum er mikið í mun að hún takist vel og hafa í þeim tilgangi farið þess á leit við landbúnaðarráðherra að erlendur sérfræðingur verði fenginn til þess að gera úttekt á íslenskum svínabúum með hliðsjón af nýju lögunum og veita ráðgjöf um nauðsynlegar úrbætur. Á næstu árum er því ljóst að miklar breytingar munu verða í íslenskum svínabúum sem miða að aukinni velferð og bættum aðbúnaði svína. Þegar þeim lýkur eiga íslenskir neytendur að geta treyst því að þær svínaafurðir sem rata á þeirra disk urðu til með þeim hætti sem best gerist.




Skoðun

Sjá meira


×