Skoðun

Mannréttindi utangarðsfólks – Housing First

Guðrún Þorgerður Ágústsdóttir skrifar
Mikil umræða hefur verið um málefni utangarðsfólks á síðustu misserum. Fjölgun hefur verið í hópnum og í hverjum mánuði bætast nýir einstaklingar við. Við sem samfélag verðum að horfast í augu við það að það munu alltaf vera einstaklingar sem missa tökin á lífi sínu vegna áfengis- og vímuefnaneyslu og okkur ber að þjónusta þessa einstaklinga á þeim stað sem þeir eru. Það er erfitt að þjónusta utangarðsfólk ef forsjárhyggja er ríkjandi og skilyrðis eins og edrúmennsku sé krafist fyrir tiltekna þjónustu eins og búsetu.

Skaðaminnkandi hugmyndafræði er mannréttindahugsun sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur til að þjóðir vinni eftir í mótun þjónustustefnu við áfengis- og vímuefnaneytendur. Öll ríki í Evrópu, nema Ísland og Tyrkland, hafa skaðaminnkandi hugmyndafræði í opinberri stefnumótun í vinnu með áfengis- og vímuefnaneytendum. Í skaðaminnkandi nálgun er einstaklingum mætt með virðingu og skilningi og ekki er gerð krafa um bindindi. Þessi nálgun er grundvallaratriði í þjónustu við hópinn og forsenda þess að ná traustu sambandi við einstaklinga og vekja von. Dregið er úr skaða sem áfengis- og vímuefnaneysla veldur einstaklingum, lífsgæði þeirra aukast og samfélagslegur og fjárhagslegur skaði er lágmarkaður. Skaðaminnkandi hugmyndafræði er því þjóðhagslega hagkvæm.

Einstaklingsmiðuð úrræði

Almennur húsnæðisvandi í samfélaginu kemur ekki síst illa niður á hópi utangarðsfólks sem á litla möguleika á að leigja sér íbúð eða herbergi á almennum markaði. Mikil eftirspurn er eftir hverri eign, leiguverðið er hátt og iðulega er krafist fyrirframgreiðslu eða tryggingar. Í Reykjavík (eina sveitarfélagið sem hefur stefnu í málaflokknum) hefur margt breyst til betri vegar í málaflokki utangarðsfólks og þjónusta aukist til muna. Engu að síður er hópurinn fjölmennur og neyðarathvörf nánast fullnýtt. Herbergjasambýli með ólíkum einstaklingum og ólíkum þörfum henta ekki öllum. Nauðsynlegt er að mæta fólki á einstaklingsmiðaðri hátt með búsetuúrræðum sem henta hverjum og einum.

Í nágrannalöndum okkar og þá helst í Noregi hefur síðasta áratuginn verið þverpólitísk samstaða um að allir eigi að eiga sér heimili í einhverri mynd, það eru mannréttindi. Hugmyndafræðin hefur verið kölluð „Housing First“ en hún er í anda skaðaminnkandi nálgunar.

„Housing First“ gengur í stuttu máli út á að sveitarfélög útvega félagslega illa stöddum einstaklingum, með áfengis- og vímuefnavanda, húsnæði og styðja þá í búsetu með þjónustu frá þverfaglegum sérfræðingateymum. Þannig fær íbúinn stuðning og hvatningu og búsetan verður farsælli fyrir einstakling og nærumhverfi. Ekki er krafist bindindis og íbúi borgar sanngjarna húsaleigu. Þessi húsnæðisstefna hefur reynst vel þar sem hún er við lýði og eru t.a.m. afar fáir einstaklingar húsnæðislausir í Ósló.

Senn líður að sveitarstjórnarkosningum og ég sem kjósandi og félagsráðgjafi starfandi í málaflokknum fer fram á það að stjórnmálaflokkarnir láti sig málefnið varða og móti sér raunsæja stefnu í sístækkandi málaflokki utangarðsfólks. Á Íslandi er sár þörf á fjölbreyttari búsetuúrræðum fyrir utangarðsfólk og nýrri nálgun í anda „Housing First“.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×