Skoðun

Næsta barátta

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Viðtal í helgarblaði Fréttablaðsins við Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur var lærdómsrík lesning. Embla, sem er fötluð, segir að fötlunin hái henni ekki; það séu fordómar samfélagsins gagnvart fötluninni sem séu vandamálið.

„Það sem hefur markað líf mitt eru fordómar. Fötlunin sem slík hefur ekki markað líf mitt því ég hef aldrei verið ófötluð,“ segir Embla í viðtalinu. „Oft gleymi ég því að ég er fötluð en man það um leið og ég fer út því allir glápa á mig eða enginn talar við mig. Fólk fattar ekki að það er vandamálið en ekki að ég geti ekki hlaupið eða þurfi aðstoð við dagleg verkefni.“

Embla bendir á að fordómar gagnvart fötluðu fólki séu flókið fyrirbæri, því að þeir þyki í lagi og fólk skilji þá oft ekki nema finna þá á eigin skinni: „Það er pólitískt rétt að vorkenna fötluðu fólki. Okkur er kennt að vera góð við þá sem minna mega sín en birtingarmynd þessarar gæsku er mjög erfið fyrir sjálfsmyndina. Ég hef aldrei fengið að vera fullorðin. Mér er klappað á kinnina eins og smábarni og ég þyki svo krúttleg. Það er talað við mig með blíðri krúttröddu, ef það er þá yrt á mig. Þegar ég fer út í búð þá er vinkona mín spurð: „Vill hún poka?““

Fordómar gegn fötluðum voru líka til umræðu á ráðstefnu Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar í síðustu viku, um hlutverk fjölmiðla og ábyrgð á samfélagsþátttöku fatlaðra. Kristín Björnsdóttir, dósent í fötlunarfræðum, benti þar á að fjölmiðlar féllu oft í þá gryfju að draga upp staðalmyndir af fötluðum; annaðhvort sem hetjum eða fórnarlömbum. „Hetjurnar eru þá fólk sem er að gera eitthvað sem við eigum ekki von á að það geti gert. Þó við höfum öll gaman af hetjum eru þær ekki beint lýsandi fyrir daglega reynslu fatlaðs fólks og fórnarlömbin eru það ekki heldur,“ sagði Kristín í samtali við Vísi. Okkur fjölmiðlafólkinu er hollt að íhuga þetta vel. Fatlað fólk þarf ekki endilega „hetjur“ sem fyrirmyndir, heldur fólk sem er fatlað og gerir venjulega hluti sem venjulegt fólk gerir.

Á ráðstefnu Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar var þeirri spurningu velt upp hvort næsta stóra umræða um mannréttindamál á Íslandi yrði umræðan um réttindi fatlaðra. Undanfarna áratugi hefðu fjölmiðlar sett kastljósið annars vegar á jafnrétti kynjanna og hins vegar réttindi samkynhneigðra og mikilvægir sigrar unnizt á báðum sviðum. Hins vegar væru réttindi enn brotin á fötluðum í stórum stíl.

Að sumu leyti kann þetta að verða erfið umræða, af því að hún snýst að einhverju leyti um peninga, sem alltaf eru af skornum skammti. En að stórum og jafnvel stærstum hluta snýst hún um fordóma, tillits- og hugsunarleysi, sem margir fatlaðir reka sig á. Nýlegt dæmi er af endurhönnun Hverfisgötunnar í Reykjavík fyrir hundruð milljóna, þar sem „gleymdist“ að gera ráð fyrir aðgengi fatlaðra að verzlunarhúsnæði.

Fáum dettur orðið í hug að halda því fram að kona geti ekki orðið flugmaður eða forsætisráðherra eða að samkynhneigt fólk geti ekki gifzt og eignazt börn. Fatlaðir búa hins vegar margir enn við að vegna þess að þeir eru aðeins öðruvísi en meirihlutinn sé gengið út frá því að þeir geti ekki það sem aðrir geta og séu þá „hetjur“ ef það tekst.

„Mig langar svo að komast á þann stað að okkur detti ekki í hug að tala svona eða koma svona fram við fatlað fólk,“ segir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir. Leiðin á þann stað er næsta stóra mannréttindabarátta.




Skoðun

Sjá meira


×