Skoðun

Dæmi hver fyrir sig

Helgi Hjörvar skrifar
Sigmundur Davíð neitar að hafa gefið fyrirheit um 300 milljarða leiðréttingu frá hrægömmum til skuldara fyrir síðustu kosningar. Sem betur fer búum við núorðið í þannig heimi að einfalt er fyrir flesta að fara bara á netið og hlusta t.d. á viðtal RÚV við hann fyrir kosningar.

Hitt er þó óumdeilt að Framsóknarflokkurinn lofaði að leiðrétta forsendubrestinn. Sá hluti íslenskra heimila sem fær leiðréttingu mun fá að meðaltali um 1,1 milljón. Hver og einn getur metið það hvort það sé sá forsendubrestur sem skuldsettu heimilin í landinu urðu að meðaltali fyrir.

Leiðréttingin nemur 72 milljörðum eða 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna og 3,75% af heildarskuldum heimilanna. Lesendur muna best sjálfir hvort þetta eru prósentutölurnar sem talað var um. Þá þræta menn varla um að þessi fyrirheit hafi verið kölluð af Sigmundi Davíð upprisa millistéttarinnar. 1,1 milljónar króna lækkun á verðtryggðu láni Íbúðalánasjóðs mun leiða til allt að 7.000 kr. lægri greiðslubyrði á mánuði fyrir þau heimili sem aðgerðirnar ná til. Hvort það jafngildir upprisu metur fólk best sjálft.

Þá var ótvírætt lofað heimsmeti en umfang aðgerðanna er skv. hagdeild ASÍ svipað og aðgerðir síðustu ríkisstjórnar. Útfærslan núna hefur hins vegar meiri þensluáhrif og vegna þess að ekkert hefur verið gert í verðtryggingunni er hætt við að á móti komi ýmis kostnaður fyrir heimilin í hækkun verðtryggðra lána, vaxta og verðlags almennt. Þar sem þetta er hvorki forsenduleiðrétting né nýting á svigrúmi hrægamma, heldur framlag af skattfé, er líka ástæða til að hafa efasemdir um að sanngjarnt sé að undanskilja í aðgerðunum efnaminnstu heimilin og þau skuldsettustu en greiða hluta fjármunanna til hátekju- og stóreignafólks í staðinn.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×