Skoðun

Sjálftaka hvað?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kvartaði yfir kostnaði við rannsóknarnefndir Alþingis í kjölfar hrunsins í grein hér í blaðinu sl. miðvikudag og talaði um sjálftöku í því sambandi. Kokhraustur mjög vill hann nú rannsaka rannsakendurna. En um hvað snýst þetta mál í raun?

Þegar fjármálakerfið hrundi afhjúpuðust spilaborgir manna sem töldu sig hafa sérstakt vit á fjármálastarfsemi og fyrirtækjarekstri. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur einkavæddu Landsbanka og Búnaðarbanka með því að selja þá „réttum aðilum“ sem fengu lán hvor hjá öðrum til kaupanna. Eftir nokkur ár af skuldsettum yfirtökum hrundi ævintýrið til grunna. Sjálfur Seðlabankinn varð gjaldþrota.

„Íslenska efnahagsundrið“ varð að viðundri á heimsvísu. Íbúðalánasjóður var tifandi tímasprengja, tap hans verður aldrei undir 100 milljörðum. Eftir að bankarnir ruddust inn á íbúðalánamarkaðinn, í kjölfar óábyrgra kosningaloforða Framsóknarflokksins um 90% lán, voru viðbrögð stjórnenda sjóðsins og stjórnvalda að láta sjóðinn veita bönkunum samkeppni.

Íbúðalánasjóður varð einn helsti fjármögnunaraðili húsnæðislána bankanna og væri gjaldþrota í dag ef ekki væri fyrir ríkisábyrgð og framlög ríkisins upp á tugi milljarða. Beinn kostnaður ríkissjóðs og þar með almennings af gjaldþroti bankanna, sparisjóðanna, Seðlabankans og Íbúðalánasjóðs er hátt í 500 milljarðar króna.

Með hruni krónunnar hrundi kaupmáttur og í ár fer áttunda hver króna ríkisins í vaxtagreiðslur. Uppsafnaður vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna skulda frá hruni er nú þegar rúmir 400 milljarðar.

Margir aðilar brugðust í aðdraganda hrunsins, þ.á.m. Alþingi. Skipan þingsins á fjórum rannsóknarnefndum er leið til að upplýsa þjóðina um orsakir og atburðarás og til að læra af mistökunum og koma í veg fyrir að þau verði endurtekin. Enn hefur ekki verið veitt fjárheimild fyrir rannsókn á einkavæðingu bankanna. Kostnaður við nefndirnar er vissulega of mikill og nauðsynlegt að læra af því. Kaldir karlar geta talað um sjálftöku í þeim efnum til að beina athyglinni frá þeim mistökum, sumra beinlínis vegna sjálftöku, sem leiddu til nær 1.000 milljarða tjóns fyrir ríkissjóð.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×