Skoðun

Stríðsæsingur og einhliða fréttaflutningur

Jón Ólafsson skrifar
Ég hef fylgst daglega með rússneskum fjölmiðlum í allmörg ár og ég veit nokkuð vel hvar línurnar liggja í málum sem hafa verið til umræðu í Rússlandi árum saman. Eitt slíkra mála er Krímskaginn. Umræður um framtíð hans hafa endurtekið sig á opinberum vettvangi aftur og aftur í gegnum tíðina og alltaf verið á sömu lund: Yfirgnæfandi meirihluti Rússa telur að ríkið eigi að gera tilkall til hans. Eins og við höfum séð síðustu vikur beita rússnesk stjórnvöld allskyns rökum til að styðja þá skoðun á alþjóðavettvangi.

Þegar maður segir frá slíkum viðhorfum eða reynir að skýra þau, gerist það stundum að hlustendur telja að markmiðið sé að réttlæta þau. Fréttamenn verða iðulega fyrir þessu: Þegar Ríkisútvarpið sagði ítarlegar fréttir af makríldeilunni fyrir nokkrum vikum var kvartað yfir því að það væri að „flytja málstað Norðmanna“.

Fráleitt

Þröstur Ólafsson fellur í þessa gildru í grein í Fréttablaðinu í gær þar sem hann heldur því fram að með því að segja í fréttaviðtali frá sjónarmiðum sem ég þekki vel og skipta máli, hafi ég fallist á og reynt að réttlæta þau. Þetta er svo fráleitt að ég ætla ekki að svara því. Bendi Þresti bara á vef RÚV og bið hann að hlusta betur.

Var ekki klisjan eitthvað á þá leið að sannleikurinn væri fyrsta fórnarlambið í stríði? Í kringum Úkraínudeiluna hefur myndast stríðsæsingur. Hann birtist meðal annars í því að ráðist er á þá sem reyna að draga fram mikilvægar hliðar málsins. Rússneskir fjölmiðlar, sérstaklega sjónvarpið, eru fullir af einhliða og heimskulegum áróðri þessa dagana þar sem stjórnvöldum í Kiev er lýst sem fasistum og ofbeldismönnum og hæðst að öllum samskiptum Úkraínu við umheiminn. En sama sjáum við hinumegin. Stöðugar fréttir eru af því að Rússar séu að undirbúa allsherjar stríð gegn nágrönnum sínum, menn velta vöngum yfir því hvað Pútín „ætli sér“ eins og í Kreml sé verið að leggja á ráðin um heimsstyrjöld.

Það hjálpar öllum að skilja hvað er að gerast að sagt sé frá sem flestum hliðum mála. En því miður er alltaf við því að búast að sumir misskilji og haldi að það sé sami hlutur að segja frá viðhorfi og að réttlæta það.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×