Skoðun

Nýir tímar í húsnæðismálum

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Í bæjarstjóratíð minni hef ég vakið athygli á því að ýmislegt þyrfti að gera til þess að bregðast við því ástandi sem nú er á húsnæðismarkaðnum.

Ég hef lagt áherslu á að við ættum að horfa á lausnir sem gera fólki kleift að eignast sitt eigið húsnæði og lagst gegn því að lausnin felist í því að sveitarfélagið komi að rekstri leigufélaga.

Margt þarf að koma til og nú hefur það loksins gerst undanfarna daga að breytingar til hins betra fyrir íbúðakaupendur hafa litið dagsins ljós.

Fyrsta frétt þessa efnis barst í síðustu viku þegar fram kom að búið væri að breyta byggingarreglugerðinni sem stuðlar að mun meiri sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis. Breytingin gefur hönnuðum aukið frelsi til þess að hanna og byggja með hagkvæmum hætti. Þetta er fagnaðarefni og nú er það hlutverk okkar sveitarstjórnarmanna að tryggja það að skipulagið taki mið af þessum breytingum svo góðar hugmyndir fái notið sín í þeim tilgangi að byggja húsnæði sem unga fólkið hefur efni á.

Þá kynnti fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, nýjan möguleika fyrir þá sem stefna á að kaupa sína fyrstu íbúð. Með séreignarsparnaði gefst þeim hópi möguleiki á að spara til íbúðarkaupa án þess að greiddur sé skattur af sparnaðinum. Þetta er mjög jákvætt og ýtir undir ráðdeild hjá ungu fólki og byggir það upp fjárhagslega fyrir framtíðina.

Þá hillir undir það að opnað verði á nýja möguleika til fjármögnunar á íbúðarhúsnæði þegar nýir kostir til fjármögnunar verða teknir upp. Gangi þeir eftir geta opnast nýir möguleikar fyrir sveitarfélögin til að aðstoða ungt fólk og þá sem höllustum fæti standa við að komast í sitt eigið húsnæði.

Jafnframt gæti þetta opnað á þann möguleika að þeir sem nú þegar eru í leiguhúsnæði hjá bænum geti keypt það og þannig átt sitt eigið húsnæði á efri árum.

Að öllu samanlögðu þá verður auðveldara fyrir ungt fólk að eignast sitt eigið húsnæði, því ber að fagna.




Skoðun

Sjá meira


×