Skoðun

Er þörf á þurraugnaþjónustu?

Jóhannes Kári Kristinsson skrifar
Grætur þú á golfvellinum? Eru augun eins og eldhnettir eftir sundsprett? Ef svo er, kann að vera að þú sért með þurr augu eða hvarmabólgu. Þessir sjúkdómar eru oft vanmeðhöndlaðir og kveður stundum svo rammt að því að einstaklingar hafa þolað einkenni sjúkdómanna alla ævi án þess að segja nokkrum manni frá.

Margt bendir til þess að tíðni þeirra hafi stóraukist á undanförnum áratugum. Kemur þar margt til. Bústaðir manna og vinnustaðir eru þurrari en áður, tölvur og ýmis önnur tæki hita loftið og þurrka. Flugferðalögum hefur fjölgað og eru gervitár staðalbúnaður margra sem vinna við flug. Klór í sundlaugum eykur oft á einkenni fólks með þurr augu og hvarmabólgu og ekki er ósennilegt að eldfjöllin íslensku og hveraloftið geti einnig haft áhrif. Fólki með þurr augu og hvarmabólgu líður nefnilega betur víðast hvar annars staðar en á Íslandi.

Mörg lyf valda augnþurrki, þar á meðal verkjalyf, lyf við magabólgum, þunglyndi og ofnæmi. Ýmsir sjúkdómar geta minnkað táraframleiðslu í tárakirtlum svo sem hinir ýmsu gigtarsjúkdómar. Talið er að fimmtungur fólks í vestrænum þjóðfélögum sé með einkenni þurra augna og upp undir 40% einstaklinga eru með einhver ummerki hvarmabólgu. Margir þjást af þeim báðum og einkenni sjúkdómanna eru margvísleg. Einkenni þurra augna eru meðal annars erfiðleikar við að opna augun á morgnana, táraflóð í roki og aðskotahlutartilfinning í augum. Einkenni hvarmabólgu eru aðallega sviði, stírumyndun í augum og ljósfælni. Báðum sjúkdómunum fylgir síðan roði í augum.

Ljóst er að bæta má þekkingu landsmanna á sjúkdómunum verulega með virkri uppfræðslu. Jafnframt er hægt að bæta meðferð með markvissari uppvinnslu á þurrum augum og hvarmabólgu. Erlendis hefur víða verið komið upp svokallaðri „þurraugnaþjónustu“, eða „þurraugnaklíník“ (dry eye clinic), sem beinist að því að meðhöndla þessa sjúkdóma á sérhæfðari og markvissari hátt. Margt bendir til þess að ekki sé vanþörf á slíku hér á landi og höfum við í Augljósi nú komið upp slíkri aðstöðu.

Farið er í gegnum hvert og eitt tilfelli með útfyllingu á tæmandi spurningalistum. Uppvinnsla af hornhimnusérfræðingi fylgir í kjölfarið og síðan er útbúin markviss meðferðaráætlun í kjölfarið, sem byggir að verulegu leyti á fræðslu þar sem sjúklingur gegnir lykilhlutverki í meðferð sjúkdómanna – segja má að hann sé besti læknirinn. Oft er um að ræða meðferð sem endist sjúklingi lífið út og því er skipulögð eftirfylgni innifalin í áætluninni.

Þurraugnaþjónusta Augljóss er nýr kafli í meðferð á þurrum augum og hvarmabólgu hér á landi. Við óskum þess að lesendur hjálpi okkur að auka meðvitund landsmanna um þessa hvimleiðu sjúkdóma og lausnir á þeim.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×