Lífið

Flytja frá Hellissandi til Berlínar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pan Thorarensen skipuleggjandi raftónlistarhátíðarinnar Extreme Chill Festival.
Pan Thorarensen skipuleggjandi raftónlistarhátíðarinnar Extreme Chill Festival. Mynd/Einkasafn
„Það er í tilefni fimm ára afmælisins sem hátíðin fer fram í Berlín en ekki á Hellissandi eins og síðustu fjögur ár,“ segir Pan Thorarensen skipuleggjandi raftónlistarhátíðarinnar Extreme Chill Festival sem fram fer í Berlín dagana 4. til 6. júlí.

Hátíðin hefur síðustu ár farið fram á Hellissandi á Snæfellsnesi og notið mikilla vinsælda. Þar hafa helstu raftónlistarmenn Íslands komið fram ásamt erlendum tónlistarmönnum.

Eftirspurn tónlistarmanna víða að úr heiminum hefur aukist og koma nú umsóknir víða að á hverju ári og er hátíðin nú orðin all þekkt víða um heim. „Ég hef búið í Berlín síðasta hálfa árið og hef staðið fyrir Extreme Chill kynningarkvöldum hér. Þar hafa komið fram íslenskir og erlendir raftónlistarmenn og hefur það styrkt sambönd tónlistarmannan ásamt því að kvöldin hafa vakið mikla athygli raftónlistarmanna og áhugamanna um íslenska raftónlist,“ útskýrir Pan.

Útón og Tónlistarsjóður Rannís hafa styrkt þessi kvöld og hafa þau gengið framar vonum.

Tveimur kvöldum af fjórum er nú lokið en næsta kvöld er núna á Föstudaginn á stað sem kallast Platoon Kunsthalle Berlin en þá munu koma fram Yagya, Rúnar Magnússon og Zuurb.

Búið er að bóka 8-10 tónlistaratriði frá Íslandi fyrir hátíðina í sumar í Berlín en á meðal þeirra eru Skurken, Stereo Hypnosis, Tonik, Árni 2, Plat, Franco Wonder, M-Band, Futuregrapher ogfleiri. Ásamt tveimur stórum þýskum raftónlistarnöfnum, Hans-Joachim Roedelius (cluster) og Thomas Fehlmann (orb).

„Ég geri þó ráð fyrir að hátíðin fari bæði fram í Berlín í mars og á Hellissandi í júlí á næsta ári,“ segir Pan um framtíðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.