Skoðun

Aukið jafnrétti – aukin hagsæld!

Soffía Sigurgeirsdóttir skrifar
Umræðan um jafnrétti á vinnumarkaði hérlendis og á Vesturlöndum endurspeglar iðulega kynbundinn launamun, ójöfn tækifæri og aðgang að stjórnendastöðum fyrirtækja. Þetta er einungis hluti af stóru hnattrænu vandamáli sem er samofið sjálfbærri þróun og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Konur eru helmingur jarðarbúa en einungis um helmingur kvenna á „vinnualdri“ er í launuðu starfi. Framlag kvenna til hagkerfisins í heiminum er gríðarlega mikið, hvort sem það er í viðskiptum, landbúnaði og matvælaframleiðslu, frumkvöðlastarfsemi, sem starfsmenn eða með ólaunaðri vinnu á heimilinu. Til að mynda sjá konur í Afríku um 80% landbúnaðar- og matvælaframleiðslunnar í álfunni. Það vinnuframlag er oft ekki launað og þau störf sem greitt er fyrir eru láglaunuð og ekki örugg.

Konur fá almennt lægri laun en karlar í heiminum, einnig í OECD-löndunum, en þar er almennur kynbundinn launamunur um 16%. Bág þjóðfélagsstaða og brot á vinnuréttindum, lögum og reglum á atvinnumarkaði hamla framgangi og tækifærum kvenna á atvinnumarkaði.

Fjárfesting í valdeflingu kvenna á atvinnumarkaði hefur jákvæð áhrif á sjálfbæra þróun, dregur úr fátækt, eflir þjóðfélagsstöðu kvenna almennt og eykur hagvöxt. Þegar fleiri konur vinna og fá laun fyrir þá vinnu, vex hagkerfi heimsins. Samkvæmt rannsóknum þá myndi verg landsframleiðsla Bandaríkjanna vera um 9% hærri ef launuð vinna kvenna væri til jafns við karla og á evrusvæðinu um 13% hærri og í Japan um 16% hærri.

Framleiðni á hvern starfsmann (GDP) gæti aukist um allt að 40% með því að útrýma launamismun karla og kvenna almennt á vinnumarkaði og hjá stjórnendum. Greining Fortune á 500 stærstu fyrirtækjum heims varpar ljósi á að þau fyrirtæki sem eru með hærra hlutfall kvenna í stjórnendastöðum skila hluthöfum 34% meiri arði en þau fyrirtæki sem eru með lágt hlutfall kvenna í stjórnendastöðum.

UN Women er í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á heimsvísu. Áherslusvið UN Women eru m.a. að auka þátttöku kvenna á atvinnumarkaði og stuðla að efnahagslegri valdeflingu kvenna í heiminum.

Jafnréttissáttmáli UN Women og Global Compact var kynntur fyrst á Alþjóðadegi kvenna 8. mars árið 2010 og er átaksverkefni stofnananna til að stuðla að auknu jafnrétti á vinnumarkaði. Sáttmálinn samanstendur af sjö viðmiðum sem byggjast á stefnu Global Compact um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Á síðastliðnum fjórum árum hafa yfir 600 fyrirtæki skrifað undir Jafnréttissáttmálann, þar af 13 fyrirtæki hér heima. Þau fyrirtæki sem innleiða sáttmálann sýna samfélagsábyrgð í verki.

Umfjöllun og vitundarvakning um jafnrétti á vinnumarkaði stuðlar að framþróun. Félag kvenna í atvinnurekstri, FKA, heldur fund í tilefni Alþjóðadags kvenna um mikilvægi þátttöku kvenna á atvinnumarkaði. Þó að umræða fundarins miðist við stöðu kvenna á Vesturlöndum þá hefur öll framþróun áhrif á stöðu kvenna um allan heim. Að stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna til atvinnuþátttöku er ekki aðeins siðferðilega rétt – heldur eykur það hagsæld í heiminum.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×