Skoðun

Leyfum þjóðinni að njóta vafans

Arnar Guðmundsson skrifar
Valkostir Íslands í gjaldeyrismálum eru tveir: Búa við íslenska krónu, studda gjaldeyrishöftum af einhverju tagi um fyrirsjáanlega framtíð, eða stefna að upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu. Þetta staðfestir umræða síðustu ára og ítarlegar skýrslur, m.a. Seðlabanka Íslands. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu er að auki líflína atvinnulífsins til mikilvægustu útflutningsmarkaða landsins.

Ábyrgðarlaust er að útiloka annan þessara valkosta, mögulega til næstu áratuga, með því að slíta aðildarviðræðum við ESB. Engin áætlun liggur fyrir um hvernig þjóðin ætlar að búa við haftakrónuna. Engin áætlun um uppgjör búa föllnu bankanna hefur verið kynnt. Hluti EES-samningsins er í uppnámi og engin lausn í sjónmáli á þeim vanda. Engin greining hefur farið fram á því hvernig við gætum haldið aðild að innri markaði Evrópu ef við brjótum kerfisbundið gegn ákvæðum samningins. Því hefur heldur ekki verið svarað hvernig við getum innleitt veigamikla þætti á borð við samræmdar aðgerðir til að tryggja fjármálastöðugleika.

Ákvörðun um formleg viðræðuslit Íslands og ESB er því miður ekki hægt að afturkalla eftir hentugleikum. Samþykki allra aðildarþjóða þarf til að hefja nýjar aðildarviðræður við Ísland.

Ákvörðun um að hefja aðildarviðræður gaf þjóðinni sjálfri valkost um framtíð landsins en í þeirri ákvörðun að hefja aðildarferlið fólst að þjóðin fengi sjálf að eiga síðasta orðið um aðild. Sú afdrifaríka ákvörðun að samþykkja eða fella aðildarsamning skyldi tekin af þjóðinni sjálfri í þjóðaratkvæðagreiðslu, byggt á bestu fáanlegu upplýsingum, einkum sjálfum aðildarsamningnum.

Þingsályktunartillagan sem nú liggur fyrir sviptir þjóðina þeim rétti að eiga sjálf síðasta orðið um fyrirsjáanlega framtíð. Hún er svipt valkosti sem er þýðingarmikill um hvaða stefnu Ísland tekur. Hluti stjórnarþingmanna hyggst í reynd fella óséðan samning fyrir hönd okkar allra. Og það án greiningar á afleiðingunum, án skýrra valkosta, án framtíðarsýnar fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf. Án þess einu sinni að standa við skýrt loforð gagnvart eigin kjósendum um að leyfa þjóðinni þó að taka sjálfri þá afdrifaríku ákvörðun að slíta viðræðum að óloknum samningi.

Hér er svo mikið í húfi að þjóðin verður sjálf að fá að njóta vafans.




Skoðun

Sjá meira


×