Skoðun

Náttúrupassi – aðgangskort sem virkar

Björn Valdimarsson skrifar
Flestir eru sammála um að það væri slæm niðurstaða ef við helstu áningarstaði ferðamanna verði kofaskrifli þar sem rukkarar híma þann tíma sem opið er til að taka við klinki af ferðamönnum. Það vakna ýmsar spurningar, hve lengi verður opið, verður hægt að skoða t.d. um miðnætti þegar albjart er á Íslandi, á að vera sólarhringsvakt, mun þetta nokkuð borga sig?

Fyrir utan hvað þetta er hallærislegt og niðurlægjandi þá er hætt við að framkvæmdin verði erfið. Á skíðasvæðum í Evrópu er fjöldinn allur af skíðalyftum, landeigendur og eigendur lyftanna reka sameiginlegt kerfi þannig að gefin eru út kort sem veita aðgang að lyftunum. Svo er gert upp eftir aðsókn hjá hverjum og einum eftir hvert tímabil.

Hægt væri að hugsa sér að gefin verði út mismunandi náttúrukort á Íslandi, t.d. vikukort sem gildir fyrir Suðurland, Norðurland, Austurland eða Vesturland, og kort sem giltu fyrir allt landið. Kortin væru sem sagt gild í mismunandi tíma og fyrir aðgreind svæði. Á stöðum þar sem óskað væri eftir að rukka aðgangseyri væri komið fyrir hliði, til að komast inn þyrfti að bera kortið að nema sem opnar fyrir hverjum og einum. Ferðamenn hefðu þannig val um hvort þeir yfirhöfuð vilja kaupa kort, hve mikið þeir vilja skoða og hve lengi. Síðan verði fjármunum sem koma inn skipt eftir ákveðnu kerfi og aðsókn.

Umsjónarmenn eða eigendur hvers staðar sæju sjálfir um að koma upp aðstöðu, girða og hafa eftirlit með starfseminni. Þannig væri ekki verið að standa í þessu nema þar sem aðsókn væri töluvert mikil. Ferðamenn borga fast verð fyrir passann og þurfa ekki að vera að spá í hvort þeir eigi að splæsa í að skoða hvern stað eða ekki, þeir renna bara kortinu í gegn.

Þetta er hugsanleg leið til að fá fjármuni til að koma upp aðstöðu og viðhalda henni. Það er fráhrindandi að setja flatan skatt á alla sem koma til landsins, sumir hafa engan áhuga á að heimsækja þessa hefðbundnu ferðamannastaði og hvers vegna á að rukka þá?

Svo eru það Íslendingarnir. Ef þeir eiga að fá aðgang sem greitt er fyrir t.d. með því að hafa greiðsluna innifalda í nefskatti eins og útvarpsgjaldinu, væri hægt að hafa það þannig að rafræn íslensk skilríki nægi til að fá aðgang.




Skoðun

Sjá meira


×