Skoðun

Viðbrögð við harmsögu úr strætó

Kormákur Örn Axelsson skrifar
Þriðjudagsmorguninn 14. janúar las ég greinina „Harmsaga úr strætó“ eftir Skarphéðin Þórsson. Í greininni rekur Skarphéðinn þá miður skemmtilegu lífsreynslu þegar honum var vísað út úr strætisvagni sökum þess að hann átti ekki nægilega mynt til þess að greiða fargjaldið. Þess í stað bauðst Skarphéðinn til þess að borga bílstjóranum með sundurrifnum 1000 króna seðli en þegar bílstjórinn neitaði að taka við sundurrifnum seðlinum og vísaði Skarphéðni úr vagninum sá Skarphéðinn sig knúinn til að skrifa umrædda grein.

Ég hef starfað við kaupmennsku í fjöldamörg ár og á þeim ferli hef ég aldrei tekið við sundurrifnum seðlum. Ekki veit ég heldur til þess að slíkt tíðkist almennt meðal kollega minna. Þess í stað bendi ég viðskiptavinum á að fara með slíka seðla í næsta banka þar sem hægt er að skipta þeim út fyrir viðunandi seðla.

Viðskiptavinir sýna þessu yfirleitt skilning og hef ég aldrei uppskorið skæting eða hörð mótmæli gegn því. Vissulega hef ég starfað við þann munað að geta gefið viðskiptavinum til baka og má Strætó BS vissulega íhuga að endurskoða greiðslufyrirkomulag fargjalda þar sem núverandi fyrirkomulag stangast á við góða viðskiptahætti, en vagnstjórar mega ekki gefa til baka.

Samkvæmt Skarphéðni heimilar Seðlabanki Íslands notkun rifinna seðla. Ef raunin er sú má íhuga hvort Seðlabanki Íslands sé úr tengslum við þann raunveruleika sem snýr að viðskiptum almennra borgara. Er virkilega hægt að ætlast til þess að menn fallist á það að fá greitt í rifnum seðlum eða þegar út í það er farið, sundursagaðri smámynt?

Ef svo er skora ég á hæstvirtan fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, að leggja fram breytingartillögu á lögum um gjaldmiðil Íslands til þess að eyða þessari óvissu sem þjakar íslenskt viðskiptalíf.




Skoðun

Sjá meira


×