Skoðun

Harmsaga úr strætó – Það má rífa peninga

Skarphéðinn Þórisson skrifar
Við lok síðasta árs þurfti ég að komast niður í bæ sökum þess að ég þurfti að fara í bankann. Sem nemi við Háskóla Íslands nota ég yfirleitt strætókort, sem ég geymi í veski mínu. Mér til mikillar gremju áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt veskinu í vinahúsi kvöldið áður, sem var einnig niðri í bæ. Ég leitaði um alla íbúð að smápeningum en það eina sem ég fann var þúsund króna seðill.

Var mér þá hugsað til þess að nokkrum mánuðum fyrr hafði ég verið í ferð uppi í Seðlabanka Íslands þar sem staðfest var að heimilt er að rífa seðla í tvennt, þ.e. 1.000 kr. seðill verður að tveimur 500 kr. seðlum, eina skilyrðið fyrir því að hvor helmingur fyrir sig sé gjaldgengur er að númer seðilsins sé til staðar á hvorum helmingi. Lagði ég glaður af stað út í biðskýlið við Klambratún og hugðist rífa seðilinn inni í strætisvagninum, en ég var tilbúinn að borga 140 kr. aukalega.

„Hvað heldurðu að ég sé?“

Er ég var kominn út í skýli leit ég á klukkuna í símanum mínum, sá að ég var á góðum tíma og áður en ég vissi var vagninn kominn. Ég steig upp í vagninn, skýrði út fyrir vagnstjóranum að ég væri einungis með 1.000 kr. seðil og spurði hvort það væri í lagi ef rifi seðilinn og borgaði þannig 500 kr.

Vagnstjórinn starði á mig og sagði loks „Hvað heldurðu að ég sé?“. Þá reyndi ég að útskýra að tölurnar á hvorum helmingi táknuðu í raun 500 kr. hver um sig og að í lagi væri að rífa seðilinn í tvennt. Vagnstjóranum var ekki skemmt og varð hinn móðgaðasti. „Þú veist það jafn vel og ég að ef þú rífur pening þá er hann ónýtur!“ sagði hann. Þá reyndi ég að útskýra fyrir honum að það væru ekki allir sem vissu af þessu og að ég væri alls ekki að ljúga að honum.

„Ef þú hefðir bara verið hreinskilinn og sagt að þú værir ekki með nægan pening þá hefði ég alveg verið tilbúinn að lána þér í þetta skipti, en eftir þessa framkomu þína þá færð þú ekki að stíga um borð í þennan vagn!“ sagði vagnstjórinn. Sá ég þá að baráttan fyrir sannleikanum væri töpuð, sagði við hann: „Ég er ekki að ljúga að þér“, sneri mér við og gekk út hinn sárasti.

Ég þurfti enn að komast í bankann og ákvað því að hlaupa niður að Lækjargötu. Sveittur og móður kom ég í bankann. Þar þurfti ég að hringja í ákveðið símanúmer sem var geymt í símanum mínum en mér til mikillar skelfingar komst ég að því að á hlaupunum hafði síminn dottið úr vasa mínum. Fór ég þá til félaga míns, náði í veskið mitt og fór heim.

Enskumælandi kona svaraði loks símanum mínum og því bjargaðist síminn en dagurinn var að engu síður ónýtur sökum þess að vagnstjórinn neitaði að taka við fullgildum lögeyri. Ég ber engar illar tilfinningar í garð vagnstjórans en vil einungis minna fólk á, sérstaklega strætisvagnstjóra, að heimilt er að rífa seðla.




Skoðun

Sjá meira


×