Lífið

Auður Ava á lista yfir bestu skáldsögurnar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Financial Times birti ákaflega fallegan ritdóm í blaði sínu um bók Auðar Övu, sem heitir Butterflies in November í enskri þýðingu.
Financial Times birti ákaflega fallegan ritdóm í blaði sínu um bók Auðar Övu, sem heitir Butterflies in November í enskri þýðingu. Fréttablaðið/Anton Brink
Rigning í nóvember eftir Auði Övu Ólafsdóttur kom út á ensku seint á síðasta ári.

Það er Brian FitzGibbon sem þýðir og Pushkin Press sem gefur út, en bókin heitir Butterflies in November á ensku. Þar þykir ekki sæta tíðindum að rigni í nóvember - en öðru máli gegnir um fiðrildin.

Stórblaðið Financial Times valdi bókina eina af tíu bestu erlendu skáldsögum sem út komu á ensku á síðasta ári. Blaðið birtir árlega langan lista, með mörgum undirflokkum, yfir það sem þykir bera af í útgáfu ársins sem er að líða.

Bókin fékk sömuleiðis ákaflega fallegan ritdóm í blaðinu, þar sem ritdómari sagði að sagan væri ekki bara bráðskemmtileg, heldur djúp og marglaga og vekti með lesandanum bjartar vonir.

Stórblaðið Independent mælir sömuleiðis sterklega með bókinni og setti hana á lista yfir fimmtíu bestu bækur vetrarins, eða hina einu sönnu vetrarlesningu.

Rigning í nóvember kom fyrst út árið 2004, en hefur verið þýdd á mörg tungumál á síðustu árum og verið er að leggja lokahönd á kvikmyndahandrit eftir bókinni. Franski leikstjórinn Judith Godrèche á að leikstýra myndinni sem Sigurjón Sighvatsson framleiðir, ásamt fleirum.

Nýjasta skáldsaga Auðar Övu er Undantekningin, sem kom út hjá Bjarti árið 2012 og hlaut góðar undirtektir, en um þessar mundir eru að hefjast æfingar í Þjóðleikhúsinu á verki hennar Svanir skilja ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.