Lífið

Dóri spáði rétt um eigin framtíð

Halldór lærði á saxófón en er hættur að grípa í hljóðfærið.
Halldór lærði á saxófón en er hættur að grípa í hljóðfærið. Fréttablaðið/Daníel.
Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, opnaði í fyrradag bréf frá sjálfum sér sem hann skrifaði í kennslustund hjá Ragnheiði Ríkharðsdóttur í áttunda bekk grunnskóla. Sextán ár eru liðin síðan hann skrifaði bréfið.

„Þetta var verkefni í skólanum þar sem við áttum að skrifa sjálfum okkur í framtíðinni bréf og spá um hvernig líf okkar yrði þá. Síðan áttum við að setja bréfið í umslag og opna það að fimmtán árum liðnum. Mamma mín geymdi það fyrir mig og afhenti mér það um daginn. Hún gleymdi því reyndar í eitt ár, og lét mig hafa bréfið ári of seint.“

Bréfið er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að þessar gömlu lýsingar Halldórs í bréfinu á eigin framtíð eru nauðalíkar lífi hans í dag.

Bréfið sem Halldór Halldórsson skrifaði þegar hann var þrettán ára.Mynd/Einkasafn
Í bréfinu stendur meðal annars: „Ég er menntaður leikari og vinn við það en það er ekki alltaf létt að vera leikari svo ég vinn líka á auglýsingastofu.“ 

Halldór er ekki leikari, en vinnur í leikhúsi og við uppistand og er með BA-gráðu í fræði og framkvæmd frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Síðan vinnur hann sem verktaki á auglýsingastofu meðfram því, og var á fundi með auglýsingastofu þegar Fréttablaðið hringdi í hann. 

„Ég var greinilega búinn að játa að draumar mínir hafi beðið skipbrot þegar ég var þrettán ára,“ segir Halldór.

„Þegar ég skrifaði bréfið fannst mér sjálfsagt að eignast barn þegar ég yrði 25 ára. Ég man hvað ég panikkeraði þegar ég eignaðist barn 25 ára gamall.“ 

Þarna er líka sitthvað sem rættist ekki. 

„Ég var að læra á saxófón á þessum tíma og spáði því að ég myndi grípa í hljóðfærið stundum, en það hefur bara safnað ryki. Ég spáði því líka að ég myndi missa sambandið við vini mína. Það er svolítið kaldrifjað af þrettán ára barni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.