Lífið

Sigur Skálmaldar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Meðlimir Skálmaldar sáttir eftir þrenna tónleika í Eldborgarsalnum í Hörpu.
Meðlimir Skálmaldar sáttir eftir þrenna tónleika í Eldborgarsalnum í Hörpu. Mynd/Lalli Sig
„Þetta ár hefur verið alveg frábært,“ segir Snæbjörn Ragnarsson bassaleikari Skálmaldar. Þeir léku eins og flestir vita með Sinfóníuhljómsveit Íslands á þrennum tónleikum í Eldborgarsalnum í Hörpu í lok nóvembermánaðar en uppselt var á alla tónleikana.

Tónleikarnir voru teknir upp á hljóði og mynd og gefnir út þann 18. desember í 4.700 eintökum en á hádegi á Þorláksmessu var hvergi hægt ná sér í eintak af tónleikunum. „Þetta er alveg lyginni líkast og erum við mjög þakklátir fyrir viðtökurnar,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, Skálmaldarmeðlimur.

Í tilefni útgáfunnar settust meðlimir Skálmaldar niður fyrir framan Skífuna í Kringlunni og árituðu plötuna.

„Við sátum í tvær klukkustundir fyrir framan Skífuna og árituðum á fullu. Við höfum örugglega talað við svona þrjú til fjögur hundruð manns, þetta var lyginni líkast,“ útskýrir Snæbjörn. Röðin sem varð til við áritunina er talin afar sjaldgæf og sögðu starfsmenn Skífunnar sjaldan hafa séð annað eins mannhaf í kringum slíka áritun.

Aðspurður um samstarfið við Sinfóníuna segir Snæbjörn allt hafa gengið rosalega vel.

„Haraldur Sveinbjörnsson kann sitt fag, hann talar bæði rokktungumálið og klassíska tungumálið. Hann vann virkilega gott starf í útsetningunum og það var einnig frábært að vinna með Bernharði Wilkinsyni stjórnanda Sinfóníunnar.“

Fyrir utan Sinfóníusamstarfið hefur árið verið gott hjá Skálmaldarmönnum.

„Ætli við séum ekki búnir að spila á svona áttatíu til hundrað tónleikum á árinu.“ Sveitin fór á Evróputúr í október og nóvember og einnig í tónleikaferðalag um Ísland. Þá fengu þeir afhenda gullplötu fyrir plötuna Börn Loka fyrir skömmu.

„Við förum svo á stóra sviðið í Borgarleikhúsinu á árinu, sagan Baldur verður sett upp þar. Ég get lítið sagt um það eins og er en það kemur í ljós á næstunni, það verður allavega rokkað í Borgarleikhúsinu,“ bætir Snæbjörn við. Baldur er fyrsta breiðskífa Skálmaldar.

Skálmöld stefnir á að gefa út plötu fyrir næstu jól.

„Við ætlum að halda áfram að vera duglegir á næsta ári og ég yrði virkilega hissa ef það kæmi ekki út plata frá okkur fyrir næstu jól.“

Það var öllu tjaldað til í EldborginniMynd/Lalli Sig





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.