Í október fékk hún hlutverk í söngleiknum Wanda‘s World á vegum leikhópsins Laughing Giraffe Productions, en það var fyrsta verkefnið sem hún fær greitt fyrir síðan hún flutti til New York.
„Þetta er söngleikur fyrir börn á miðstigi í grunnskóla sem fjallar um stelpu sem er strítt í skólanum af því að hún er með fæðingarblett sem þekur stóran part af andlitinu,“ segir Jara. Októbermánuður var tileinkaður baráttu gegn einelti og fór leikhópurinn í tveggja vikna ferðalag um Massachussetts og New York-fylki.
„Gaman að segja frá því að ég leik vondu stelpuna í leikritinu og í lok leikritsins á einni sýningunni fengu krakkarnir nóg af þessari illsku minni og púuðu hástöfum á mig og einn strákur æpti: „You‘re mean!“ (þú ert vond). Ég tók því að sjálfsögðu sem hrósi og greinilegt að þau náðu boðskapnum í sýningunni,“ segir Jara.

Sýningin er nú á fjölunum í leikhúsi Off-Broadway á Times Square einu sinni í viku og mögulega halda þau í annað ferðalag eftir áramót. Það er því nóg að gera hjá leikkonunni ungu, en að auki er hún með sinn eigin leikhóp.
„Ég stofnaði leikhópinn Exodus Theatre Company í sumar ásamt kærastanum mínum, en hann leikur einnig með mér í fyrrnefndum söngleik. Við settum upp sýningu í september sem seldist upp og erum núna að vinna í næsta verkefni sem mun, ef allt gengur upp, verða sýnt í febrúar eða mars,“ segir Jara.
Aðspurð hvort hún sé nú farin að lifa á leiklistinni játar hún því, en segir launin þó engan veginn duga fyrir kostnaðinum úti. „Ég á langt í land með að hafa þetta að aðalvinnu en þetta er gott skref í áttina. Einhvers staðar verður maður að byrja,“ segir Jara. Hún kemur til Íslands í desember og heldur jól hér í fyrsta sinn í þrjú ár. „Ég hlakka mikið til, en ég hlakka mest til þess að borða skötu.“