Skoðun

Verklaus bæjarstjórn

Pétur Hrafn Sigurðsson skrifar
Á valdastóli í Kópavogi sitja tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur langa reynslu af því að vera í meirihluta og Björt framtíð sem er ný á þessum vettvangi. Búast mætti við að í meirihluta með nýjum aðila myndu birtast nýjungar og mál á dagskrá bæjarstjórnar sem hið nýja afl vildi halda á lofti.

Sömuleiðis mætti gera ráð fyrir að nýliðarnir í röðum Sjálfstæðisflokksins myndu vilja koma málum á dagskrá bæjarstjórnar. Í heild mætti því búast við að meirihlutinn myndi leggja línurnar með virkum málflutningi á vettvangi bæjarstjórnar, þar geta íbúar fylgst með og þar er opin umræða sem mikið er kallað eftir í stjórnmálum í dag.

Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs nú nýlega vakti ég athygli á verkleysi meirihlutans, en það voru eingöngu fundargerðir sem lágu fyrir fundinum, sem þýðir að það voru engar tillögur eða mál önnur en þau sem voru til umfjöllunar í nefndum. Það eru liðnir 154 dagar frá því að fyrsti bæjarstjórnarfundurinn var haldinn, 154 dagar frá því Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur tóku við.

Oft er talað um að meta árangur nýrra valdhafa, stefnu, kjark og dug eftir 100 daga á valdastóli. En Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkur hafa setið í 154 daga. Á þessum tíma hefur meirihlutinn ekki komið fram með eitt einasta mál á dagskrá bæjarstjórnar fyrir utan málefnasamning og breytta bæjarmálasamþykkt á fyrstu tveim fundunum og svo lögbundna fjárhagsáætlun.

Ekkert mál frá flokkunum sem stjórna Kópavogi, ekkert frumkvæði, engar nýjar hugmyndir.

Dagskrármálin sem komið hafa inn eru skipulag höfuðborgarsvæðisins frá SSH, Vatnsvernd frá stýrihópi og tillaga frá Samfylkingunni um skólamál.

Er meirihlutinn ekki með eitt einasta mál sem er þess virði að leggja fram í bæjarstjórn sem dagskrármál og ræða þar á opnum vettvangi þar sem bæjarbúar geta fylgst með?

Mér, sem nýjum bæjarfulltrúa, finnst þetta einkennilegt verklag hjá fulltrúum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks.




Skoðun

Sjá meira


×