Skoðun

Nýsköpunarborgir

Óli Örn Eiríksson skrifar
Gjaldþrot Detroit-borgar komst í fréttirnar á síðasta ári og vakti athygli á mikilli hnignun borgarinnar. Detroit er gott dæmi um borg sem byggðist upp í kringum framleiðslu. Þessar borgir voru á síðustu öld ríkustu borgir Bandaríkjanna og miklar nýsköpunar- og hagvaxtarvélar. Hnignun þeirra hefst upp úr 1980 þegar eigendur framleiðslufyrirtækjanna hófu að flytja starfsemi sína til svæða með lægri laun víða um heim. Störfum í borginni fækkaði hratt og upp frá því myndaðist vítahringur fólksfækkunar og versnandi efnahags.

Bilið að breikka

Saga Detroit er gott dæmi um sögu framleiðsluborga Bandaríkjanna en á undanförnum 30 árum virðast bandarískar borgir hafa þróast upp í þrjá mismunandi flokka: hratt vaxandi þekkingarborgir, hnignandi framleiðsluborgir og loks borgirnar sem vega salt í miðjunni og óvíst í hvorn flokkinn munu lenda.

Bilið á milli þessara borga og sú staðreynd að það virðist vera að breikka frekar en að dragast saman er efni bókarinnar „The geography of jobs“ eftir Enrico Moretti. Í bókinni rannsakar höfundur 320 atvinnusvæði í Bandaríkjunum og kemst að þeirri niðurstöðu að 20 svæði eru að stinga restina af landinu af. Þetta eru nýsköpunarborgirnar.

Stigvaxandi samþjöppun

Í öllum borgum eru tveir atvinnumarkaðir: staðbundin þjónusta og útflutningur. Við staðbundna þjónustu vinna bæði háskólamenntaðir (kennarar, læknar, fjármálaráðgjafar) og fólk með minni menntun (þjónar, leigubílstjórar, hárgreiðslumenn). Stærstur hluti íbúanna vinnur við þjónustugeirann. Það er hin hliðin, útflutningurinn, sem skapar tekjur til þess að greiða laun starfsmanna í þjónustunni. Borgir sem hafa byggt upp sterka klasa af þekkingarfyrirtækjum í útflutningi hafa á undanförnum árum tekið afgerandi fram úr öðrum svæðum með tilliti til launa, menntunarstigs og lífsgæða.

Þessi stigvaxandi samþjöppun vekur spurninguna af hverju þekkingarfyrirtæki flytja ekki starfsemi sína í ódýrari borgir og nýta sér lægri húsaleigu og launakostnað sem samkeppnisforskot? Ástæðan er sú að þekkingarstarfsemi byggist ekki eingöngu á þeirri þekkingu sem býr inni í hverju fyrirtæki heldur byggist hún að einhverju leyti á þeirri þekkingu sem „liggur í loftinu“. Þekking í öðrum fyrirtækjum, innan háskólanna og í stoðþjónustu mynda saman eitt nýsköpunarhagkerfi. Það er þetta sameiginlega nýsköpunarhagkerfi sem dregur til sín þekkingarfyrirtæki og þekkingarstarfsmenn. Eftir því sem þeim fjölgar þeim mun meira spennandi verður borgin fyrir báða aðila.

Hvar stendur Reykjavík?

Þekkingarborgir bjóða ekki bara þekkingarstarfsmönnum há laun. Moretti bendir á að fólk sem hefur ekki lokið háskólaprófi og vinnur í nýsköpunarborgunum hefur mun hærri laun en samanburðarhópur í framleiðsluborgum. Munurinn er svo mikill að í sumum tilfellum eru ómenntaðir íbúar nýsköpunarborga komnir með hærri tekjur en háskólamenntaðir íbúar framleiðsluborga.

Á Íslandi er það vel þekkt að íbúar á landsbyggðinni hafa minni menntun og þeim bjóðast fábreyttari störf en íbúum á höfuðborgarsvæðinu. Enn skortir þó á að hugsa um höfuð­borgarsvæðið út frá öðrum borgum í heiminum. Hvar stendur Reykjavík í alþjóðlegum samanburði? Er nýsköpunarkerfi borgarinnar nægilega öflugt til þess að keyra áfram hagvöxt framtíðarinnar?




Skoðun

Sjá meira


×