Lífið

Íslenskur leikstjóri gerir skrímslaþátt í Japan

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Arró þarf að hafa túlk með sér í vinnunni í Japan.
Arró þarf að hafa túlk með sér í vinnunni í Japan. mynd/einkasafn
„Ég vann við tökur á japanskri kvikmynd síðasta vor og framleiðandi myndarinnar hafði samband við mig og stakk upp á því að ég kynnti hugmyndir mínar að þáttum fyrir mönnum hjá japanska ríkissjónvarpinu,“ segir Arró Stefánsson leikstjóri. Hann vinnur nú að framleiðslu prufuþáttar sem verður sýndur í Japan í maí og mun almenningur síðan kjósa um hvort þátturinn verði að þáttaröð.

„Þátturinn heitir Monster Clean Up Crew. Í honum sýnum við heim sem hefur lifað af árás skrímsla. Sérstakt fyrirtæki hefur það hlutverk að halda skrímslunum í skefjum í neðanjarðarbyrgi undir Tókýóborg. Í bankahruninu í Japan fer fyrirtækið svo á hausinn og skrímslin sleppa. Þátturinn fjallar svo um baráttuna við að ná þessum skrímslum aftur,“ útskýrir Arró. Hann skrifaði handritið ásamt bandarískum vini sínum og var þetta ein af mörgum hugmyndum sem hann kynnti fyrir mönnum hjá japanska ríkissjónvarpinu. Arró vinnur nú hörðum höndum að því að ljúka öllum verkum fyrir tökur sem hefjast í lok mánaðarins.

„Við erum á fullu í undirbúningi. Við erum að velja leikara og fleira. Annars er mjög sérstakt að vinna hérna, því fáir tala ensku. Ég þarf að hafa túlk með mér hvert sem ég fer þegar ég er að vinna,“ segir Arró. Hann hefur unnið að ýmsum verkefnum á Íslandi og segir margt svipað með því að vinna hér á landi og í Japan.

„Þegar tökur hefjast er þetta rosalega svipað. En fyrir utan tökustaðinn er allt miklu formlegra í Japan, enda byggist japönsk menning á hefðum.“

Arró nýtur annars lífsins í Japan.

„Ég flakka mikið á milli Japans og Íslands. Fjölskyldan mín flutti hingað fyrir fimm árum og bróðir minn er í háskóla hér í Japan. Hér er fullt af tækifærum fyrir mig en ég get aldrei slitið mig almennilega frá Íslandi og finnst gott að vera á báðum stöðum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.