Innlent

Veita styrk fyrir ferð í bíó og húsdýragarð

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
"Við höfum einnig veitt styrki til að öll fjölskyldan geti farið saman í til dæmis Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.“
"Við höfum einnig veitt styrki til að öll fjölskyldan geti farið saman í til dæmis Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.“ Vísir/Arnþór
„Reynslan hefur verið sú að umsóknum um aðstoð hefur fækkað á sumrin. Sá dagur er ekki enn kominn á þessu sumri,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Skýringuna telur hún meðal annars vera þá að nú sé að koma nýtt lyfjaár, eins og hún orðar það.

„Margir leystu út lyfin sín fyrir 4. maí í fyrra þegar nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum tók gildi. Þeir eru kannski að byrja upp á nýtt núna í júní. Það sem af er þessum mánuði hafa jafn margir sótt um og allan apríl.“

Hægt er að sækja um styrk hjá Hjálparstarfi kirkjunnar vegna kaupa á lyfjum vegna sýkingar, óvæntra veikinda og breytinga á lyfjagjöf.

„Jafnframt aðstoðum við fólk við að borga fyrstu greiðsluna vegna kaupa á öðrum lyfjum á nýju lyfjaári,“ greinir Vilborg frá.

Sem fyrr hafa margir fengið aðstoð við að greiða fyrir sumarbúðadvöl barna eða aðrar tómstundir að sumarlagi.

„Við gerðum auk þess svolítið öðruvísi í ár. Þar sem við leggjum áherslu á að gefa allri fjölskyldunni tækifæri til að upplifa eitthvað skemmtilegt saman var ákveðið að bjóða fjölskyldum dvöl í sumarbúðum í samstarfi við Hjálpræðisherinn. Nýlega dvaldi 21 fjölskylda sér að kostnaðarlausu í viku á Úlfljótsvatni. Þetta var ótrúlega vel heppnað. Við höfum einnig veitt styrki til að öll fjölskyldan geti farið saman í til dæmis Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, á leiksýningu eða í bíó svo eitthvað sé nefnt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×