Skoðun

Virkara íbúalýðræði

Gunnar Gíslason skrifar
Á Akureyri sem víðar heyrast háværar raddir um að bæjarfulltrúar hafi ekki nægilegt samráð við íbúana um stærri mál sem snerta beint hagsmuni og velferð bæjarbúa. Við þessu vil ég bregðast og auka þátttöku íbúanna í ákvörðunartöku sem snertir ýmis stærri mál. Margt hefur verið gert; íbúaþing hafa verið haldin, boðið er upp á viðtalstíma bæjarfulltrúa, skipulagsákvarðanir eru settar í lögboðið umsagnarferli, boðað er til kynningarfunda um einstök mál og íbúum hefur staðið til boða að koma fram með tillögur um afmörkuð mál. En betur má ef duga skal.

Íbúarnir gera kröfu um að á þá sé hlustað og tillit tekið til afstöðu þeirra til einstakra mála. Þetta eru oft mál sem hafa mikil áhrif á líf þeirra til framtíðar. Ég tel góðan kost í mörgum stærri málum, svo sem skipulagsmálum sem hafa áhrif á bæjarbúa alla, að haldnar verði rafrænar íbúakosningar. Tæknin og þekkingin er til staðar nú á 21. öldinni svo einfalt og hagkvæmt verði að framkvæma slíkt.

Einnig vil ég auka vægi hverfisnefnda í stjórnkerfi bæjarins. Stjórnmálamenn eiga ekki að þvinga í gegn hugmyndir sem snerta nánasta umhverfi hóps bæjarbúa sem íbúum almennt hugnast ekki. Leggja þarf ríka áherslu á að móta skýra sýn fyrir sveitarfélagið allt til lengri tíma í stærri málum sem valdið geta úlfúð og deilum, svo sem þegar horft er til þéttingar byggðar.

Við verðum að hafa í okkur dug til að takast á við erfiða umræðu í stað þess að flýja hana og keyra málin í gegn án tillits til allra sjónarmiða. Með því að móta skýra sýn og setja okkur markmið getum við saman horft með meira öryggi til framtíðar. Það gefur íbúum og fyrirtækjum betri grunn að byggja á til framtíðar. Framtíðin verður ekki okkar nema við gerum hvað við getum til að hafa áhrif á hana og breyta aðstæðum til batnaðar.




Skoðun

Sjá meira


×