Skoðun

Heimili eða fjárfesting

Erlendur Geirdal skrifar
Eins og flestum er kunnugt ríkir ófremdarástand í húsnæðismálum á landinu. Alltof lítið framboð er á íbúðum til leigu og leiguverðið hefur hækkað með aukinni eftirspurn. Verð á flestum nauðsynjum er einnig hátt en laun eru hins vegar lág því þau hafa ekki fylgt verðlagsþróun. Því hafa margar fjölskyldur ekki efni á því að leigja sér mannsæmandi húsnæði og hírast í of litlum íbúðum og jafnvel ósamþykktum kytrum í atvinnuhúsnæði.

Hér á landi hefur séreignarstefna ríkt í húsnæðismálum þar sem gert er ráð fyrir að fjölskyldur festi sparifé sitt í steinsteypu og skuldsetji sig til að eignast húsnæði. Í kjölfar hrunsins er mun erfiðara að fá lán og flest ungt fólk hefur því litla möguleika á því að kaupa sér húsnæði af eigin rammleik vegna þess að það getur ekki safnað sér fyrir útborgun í íbúð.

Þegar fjölskyldur geta ekki eignast eigin íbúð á Íslandi búa þær flestar við óöryggi í húsnæðismálum. Örum búferlaflutningum, vegna þess að ekki fást íbúðir til langtímaleigu, fylgja óþægindi og álag á fjölskyldurnar svo sem þegar næsta leiguíbúð er í öðru skólahverfi og börnin þurfa að kynnast nýjum félögum og aðlagast nýjum skólum.

Húsnæðisleigumarkaður hefur aldrei náð að þroskast hér á landi í líkingu við það sem er annars staðar á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Líklegt er að það sé vegna hinnar miklu og einhliða áherslu á séreignarstefnuna.

Sumir vilja leigja – óháð efnahag

Margt ungt fólk vill eiga þess kost að búa með fjölskyldu sinni til lengri eða skemmri tíma að eigin vali í húsnæði þar sem það greiðir aðeins leigu en þarf ekki að fjárfesta í húsnæðinu. Það vill geta valið um að nota peninga sína til ferðalaga eða hvers annars sem það kýs sér í stað fjárfestingar. Það ætti að sjálfsögðu að bjóðast hér eins og víðast annars staðar.

En til þess að slíkir valkostir geti boðist á Íslandi er brýnt að hér verði til alvöruleigumarkaður með eðlilegu framboði á leiguhúsnæði. Ljóst er að hér duga markaðsöflin ein ekki frekar en hjá öðrum þjóðum til að leysa málin og að opinberir aðilar þurfa að koma þar að.

Því er ástæða til að fagna áformum Reykjavíkurborgar um stórátak í byggingu leiguhúsnæðis í samvinnu við ýmis félagasamtök. Einnig ber að fagna nýlegri samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs um að bærinn hefji undirbúning að byggingu húsnæðis í bænum þar sem boðnar verða hagkvæmar íbúðir til leigu á almennum og félagslegum markaði.

Það er löngu tímabært að fjölskyldur sem það kjósa, geti búið sér öruggt heimili til lengri tíma á Íslandi án þess að þurfa endilega að fjárfesta í húsnæði.




Skoðun

Sjá meira


×