Menningar- og listafjelag Hafnarfjarðar (MLH) mun sjá um rekstur Bæjarbíós í Hafnarfirði næsta árið. Þetta var ákveðið á fundi Menningar- og ferðamálanefndar bæjarins í gær.
Ákvörðunin byggir meðal annars á þátttöku Menningar- og listafjelags Hafnarfjarðar í samfélaginu á síðustu misserum. Félagið hafi staðið fyrir vel heppnuðum viðburðum meðal annars í samstarfi við Miðbæjarsamtökin og Gaflaraleikhúsið.
„Við erum í skýjunum með þetta,“ segir Kristinn Sæmundsson, dagskrárstjóri MLH. „Við erum búin að vera að sverma í kringum þetta í svolítinn tíma. Þannig að við hlökkum bara til að fá að starfa í þessu húsi með öllum þeim tækifærum sem þar leynast.“
MLH var stofnað í febrúar og stóð meðal annars fyrir Færeyskum dögum í Hafnarfirði í upphafi árs.
Menningar- og ferðamálanefnd mun áfram vinna að gerð samnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem tryggja mun sýningaþátt Kvikmyndasafns Íslands í bíóinu. Sá þáttur muni væntanlega skýrast.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið gagnrýndi bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir að setja starfsemi Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíói í uppnám. Með því að bæta við þá starfsemi sem fram fer í bíóhúsinu hafi upphaflegar forsendur fyrir flutningi Kvikmyndasafnsins í Hafnarfjörð orðið að engu.
„Það er ekki þannig að Kvikmyndasafnið sé að fara út,“ segir Marín Hrafnsdóttir, menningar- og ferðmálafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar. „Í öllu ferlinu hefur verið lögð á það áhersla að Kvikmyndasafn Íslands verði áfram með sínar sýningar í Bæjarbíói tvisvar í viku.“
Menningar- og listafjelag tekur við rekstri Bæjarbíós
Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
