Handbolti

Ísland með á HM í handbolta í Katar eftir allt saman?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Stefán
Íslenska handboltalandsliðið gæti verið á leiðinni á HM í Katar í janúar eftir allt saman vegna ástandsins við Persaflóann en svo gæti farið að bæði Barein og Sameinuðu arabísku Furstadæmunum yrði meinuð þátttaka á HM í handbolta á næsta ári. Íslenska HM-vonin var endurvakin í frétt á hbold.dk í dag.

Grunnurinn að vandamálinu eru slæm samskipti á milli Katar og fyrrnefndra nágranna þeirra við Persaflóann. Varaþjóðir fyrir Barein og Sameinuðu arabísku Furstadæmin ættu að öllu eðlilegu að vera Sádí-Arabía, Óman eða Kúvæt en ástandið á milli þeirra og Katar er ekkert skárra.

Lausnin hjá Alþjóðahandboltasambandinu gæti því verið að bjóða varaþjóðum Asíu og Evrópu sætin en það eru Suður-Kórea og Ísland.

Þýskaland datt út úr umspilinu um sæti á HM eins og Íslands en fékk síðar að taka sæti Ástralíu sem Handknattleikssamband Íslands var mjög ósátt með.

Íslenska landsliðið var aldrei að fara taka sætið af Þjóðverjum úr því sem komið var en nú hefur hinsvegar opnast mögulega önnur óvænt leið fyrir íslenska liðið inn á HM í Katar sem fer fram í janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×