Skoðun

Á rangri leið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það var vægast sagt kjarnyrt ályktun sem Samband ungra sjálfstæðismanna samþykkti á málefnaþingi um liðna helgi. Í ályktuninni er ríkisstjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn gagnrýnt harðlega og hugmyndir reifaðar um að því verði slitið.

Það ber að taka þeim athugasemdum sem ungliðarnir gera af fullri alvöru. Alvarlegasta athugasemdin er vegna tugmilljarða króna þjóðnýtingar einkaskulda. Aðgerð sem kölluð hefur verið leiðrétting, en er í raun ekkert nema himinhá greiðsla stjórnarflokkanna fyrir atkvæði sín. Með aðgerð sem ráðist var í að frumkvæði Framsóknarflokksins en með samþykki Sjálfstæðisflokksins, sem kennir sig við frelsi og ábyrgð einstaklingsins, er fjármunum sóað, sem betur væru komnir í uppbyggingu nýs sjúkrahúss eða lækkun ríkisskulda. 

Það virðist líka sem verulega skorti á virðingu fyrir góðri stjórnsýslu í ráðuneytunum þessa dagana. Með stuttu millibili hefur tvisvar verið greint frá því að í bígerð sé að flytja ríkisstofnanir, eða að minnsta kosti hluta þeirra, til svæða utan Reykjavíkurborgar. Hugmyndir um flutning Fiskistofu virðast komnar sýnu lengra en hugmyndir um flutning barnaverndarmála. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir flutningnum, önnur en sjónarmið um eflingu byggðar. 

Lögfróðari menn en ég hafa bent á að Fiskistofa verður ekki flutt án þess að Alþingi samþykki lög sem heimili slíkt. Hið sama á við um breytingar á yfirstjórn barnaverndarmála. Það er ágætt, því fleiri munu þá koma að ferlinu í kringum þá ákvarðanatöku. Og þá kviknar sú spurning hvort þingmenn beggja stjórnarflokka ætli að taka þátt í þeirri grímulausu sérhagsmunagæslu framkvæmdarvaldsins sem fælist í flutningi þessara stofnana.

Við það bætast svo fréttir af meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði. Eins og fram kom í Fréttablaðinu á mánudaginn hyggst Eygló Harðardóttir velferðarráðherra fela Barnaverndarstofu að endurnýja tæplega 500 milljóna króna þjónustusamning til þriggja ára við meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði þrátt fyrir að Barnaverndarstofa sé eindregið á móti endurnýjun samningsins. Barnaverndarstofa segir þá meðferð fjármunanna ekki í samræmi við bestu vitund um faglegar kröfur og meðferðarþörf barna sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Vissulega ber ráðuneyti Eyglóar ábyrgð á stefnumótun í barnavernd. Það breytir ekki þeirri staðreynd að mesta fagþekking á málaflokknum er á Barnaverndarstofu og ráðherra væri sómi af að hlusta á skoðanir stofnunarinnar. 

Ofan á þetta bætist svo landbúnaðarkerfi sem löngu er kominn tími til að verði endurskoðað. Ekki bara vegna frétta af því að allar tilraunir smásöluaðila til innflutnings á landbúnaðarvörum, hvort sem sambærilegar vörur eru framleiddar hér eða ekki, hafa verið kæfðar í fæðingu. Heldur líka vegna þess að Mjólkursamsalan hefur markvisst rutt samkeppnisaðilum af markaði með bolabrögðum. 

Varðstaða um landbúnaðarkerfið og kjördæmapot er að vísu ekkert nýtt og ekkert sem einskorðast við núverandi stjórnarflokka. En flokkar sem þora ekki að gera nauðsynlegar breytingar til heilla fyrir almenning, þeir eiga ekki erindi í stjórnarmeirihluta.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×