Innlent

Mannslát eftir mistök við lyfjagjöf: Segir faglega ekkert við niðurstöðuna að athuga

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og við greindum frá í gær er of stór morfínskammtur sem Pétur Pétursson fékk á hjúkrunarheimilinu Garðvangi ekki talin ástæða andláts hans átta dögum síðar, samkvæmt skýrslu landlæknis um málið. Ættingjar Péturs og læknir hans á Garðvangi eru ósátt við þá ályktun og þá staðreynd að honum var ekki gefið mótefni þrátt fyrir fyrirmæli læknisins þar um.

Getið þið hjá embætti landlæknis fullyrt með góðri samvisku að ekkert orsakasamhengi hafi verið milli þessarar röngu lyfjagjafar og andláts sjúklingsins?

„Já, það er okkar niðurstaða eftir að hafa leitað álits sérfræðinga og skoðað öll gögn, að það verði ekki sagt með vissu að það séu nein tengsl þarna á milli og við teljum að svo sé ekki,“ segir Leifur Bárðarson, yfirlæknir hjá embætti landlæknis.

Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, var fenginn til að gefa álit á lyfjamistökunum á Garðvangi fyrir skýrslu landlæknisembættisins um málið. Magnús segir misskilning að Pétur hafi fengið tuttugu sinnum meira af lyfinu en hann átti að þola, eins og sagt hefur verið í fréttum, þar sem hann hafi fengið lyfin á töfluformi en ekki í æð. Skammturinn hafi verið frekar stór en ekki eitrunarskammtur og þar sem engin einkenni eitrunar hafi komið fram hafi verið rétt mat, eftir ráðleggingar frá Eitrunarmiðstöð, að gefa ekki mótefnið því það sé ekki hættulaust.

„Þegar sjúklingurinn veiktist var allt morfín farið úr líkama hans svo það er erfitt að sjá að samband hafi verið á milli lyfjagjafarinnar og andlátsins,“ segir Magnús. „Það var því niðurstaða minnar rannsóknar að eftir að mistökin á Garðvangi uppgötvuðust og sjúklingurinn var sendur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, hafi allt verið gert rétt.“

Spilar kostnaður inn í svona ákvarðanir?

„Það held ég ekki, því þetta eru ódýr lyf,“ segir Magnús.

Hann getur ekki útskýrt af hverju fyrirmæli læknisins um að gefa mótefnið voru hunsuð en segir að hugsanlega hafi læknirinn ekki haft réttar upplýsingar um lyfjaskammtinn. Þessu hafnaði læknirinn í samtali við fréttastofu í dag og hann kveðst enn þeirrar skoðunar að mótefnið hafi verið eini möguleiki Péturs.

Samkvæmt lögum ber að tilkynna landlækni án tafar um atvik sem valdið geta sjúklingi alvarlegu tjóni en dráttur varð á því og mál Péturs var aldrei tilkynnt lögreglu sem voveiflegt andlát. Leifur segir matsatriði hvenær slíkt eigi við, ekki síst hvað varði öldrunar- og hjúkrunarheimili þar sem margir séu veikir fyrir.

„Þetta er ekki eitt af því sem ég skoðaði, ég skoðaði bara lyfjagjöfina,“ segir Magnús, „en það er greinilegt að það var ekki farið eftir verklagsreglum þarna.“

Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, kveðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru orsakatengsl á milli hinnar röngu lyfjagjafar og andláts sjúklingsins.
Í frétt okkar í gær sagði Maríus Sævar Pétursson, sonur Péturs, að hjá embætti landlæknis hefði ekki verið staðið við loforð um svör til fjölskyldunnar. Leifur segir hins vegar að starfsmaður hafi átt samtal við ættingja í vor til að fara yfir málið. Lagaramminn geri embættinu þó erfitt um vik, þar sem ættingjar teljist ekki aðilar málsins. Það hljómi kaldranalega, en sé sá veruleiki sem embættið búi við.

Leifur segir verkferla hafa verið bætta í kjölfar atviksins. Starfsemi Garðvangs hefur verið flutt á annað heimili í Keflavík og í niðurstöðuskýrslunni segir meðal annars: "Á hinu nýja hjúkrunarheimili sem rekið er af Hrafnistu eru í gildi verklagsreglur sem ætlað er að tryggja rétta lyfjagjöf."

Magnús kveðst skilja óánægju ættingjanna og læknisins. „Og ef einhver heldur að mistök hafi átt sér stað er sjálfsagt að ræða það,“ segir hann.

Hægt er að óska eftir endurupptöku en Leifur telur faglega ekkert við málið að athuga.

Ef fjölskyldan verður ennþá ósátt við ykkar svör, hvert getur hún leitað?

„Best væri að hún hefði samband við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en ef það nægir ekki er að sjálfsögðu velkomið að hafa samband við okkur hjá Landlæknisembættinu,“ segir Leifur.


Tengdar fréttir

Lögreglu ekki tilkynnt um mistök við lyfjagjöf

Pétur Pétursson fékk tvítugfaldan skammt af morfínlyfinu Contalgin sem ætlaður var herbergisfélaga. Lögreglu var ekki tilkynnt um mistökin þrátt fyrir lagaskyldu.

Mannslát vegna mistaka: Skrýtið að móteitur hafi ekki verið notað

Læknir segir skrýtið að manni sem lést eftir mistök við lyfjagjöf á Garðvangi, hafi ekki verið gefið móteitur og prófessor segir ráðlegt að nota það, þrátt fyrir mögulega áhættu. Landlæknir lofar fjölskyldunni að málið verði skoðað af festu.

Lyf oft vitlaust gefin: "Ástæða til að hafa áhyggjur"

20% lyfja á sjúkrahúsum eru vitlaust gefin og yfir 80% líkur eru á að fólk verði fyrir lyfjamistökum ef það dvelst á hjúkrunarheimili í eitt ár, samkvæmt erlendum rannsóknum. Ástandið er svipað hér á landi og ástæða til að hafa áhyggjur, segir verkefnastjóri hjá embætti landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×